Jóna Járnbrá Jónsdóttir og Japaninn K. Tasuta kanna gæði hráefnisins. Ljósm. Smári GeirssonAð sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur manneldisvinnsla gengið vel á yfirstandandi loðnuvertíð. „Loðnan er góð og heppileg til slíkrar vinnslu enda fer allur afli sem að landi berst í hana“, segir Jón Gunnar. „Frá því að veiði hófst á ný í byrjun febrúar hefur vinnslan í fiskiðjuverinu verið samfelld og afköst góð. Ýmist er framleitt á Japan eða Austur-Evrópu – kvensílið fer á Japan en karlinn á Austur-Evrópu. Hingað til hefur engin áta verið í loðnunni en fyrst nú verður dálítið vart við hana. Í fiskiðjuverinu eru nú sex Japanir sem fylgjast með framleiðslunni og gæðum hráefnisins. Þeir eru fulltrúar þriggja kaupenda í Japan“.

Aðspurður segir Jón Gunnar að nú séu síðustu dagar loðnufrystingar á vertíðinni. Hrognafylling loðnunnar er um 22% og gera megi ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist í næstu viku.

Nú er verið að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu 850 tonnum úr Berki NK og Bjarni Ólafsson AK er á landleið með 650 tonn.