Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Benedikt Þór Guðnason að störfum

Benedikt Þór Guðnason var ráðinn í starf viðhaldsstjóra hjá Bergi – Hugin og Bergi í Vestmannaeyjum fyrir rúmlega ári síðan. Hann segir að í starfinu felist að þjónusta skipin Vestmannaey VE og Berg VE með fjölbreyttum hætti. „Það þarf að sinna viðhaldi alls búnaðar um borð, allt frá vélum skipanna til þvottavéla. Verkefnin eru mjög breytileg. Á síðasta ári kom upp eldur í vélarúmi Vestmannaeyjar og það kallaði til dæmis á margvísleg verkefni sem þurfti að fast við. Þegar kemur að meiriháttar viðhaldi á skipunum eru þau tekin á land í Reykjavík eða í Hafnarfirði. Þá þarf ég gjarnan að vera töluvert að heiman. Starfið mitt er þess eðlis að ég þarf að vera í sambandi við býsna marga. Ég er í nánu sambandi við áhafnir skipanna, einkum við yfirmenn um borð, og einnig þarf ég að vera í góðum tengslum við stjórnendur útgerðanna, ekki síst hvað varðar mat á kostnaði. Þá er ég í miklu sambandi við norska aðila, en skipin voru smíðuð í Noregi. Ég er að vinna með afar góðu fólki og ég er á mjög góðum vinnustað. Staðreyndin er sú að ég get ekki kvartað yfir neinu. Stjórnendur fyrirtækisins leggja metnað sinn í að allt sé í sem bestu lagi um borð í skipunum og að útgerðin sé að öllu leyti til fyrirmyndar. Það er mjög gott að starfa í slíku umhverfi.“ segir Benedikt.