Nú þegar síldar- og makrílvertíð er væntanlega að hefjast fyrir alvöru er eðlilegt að spurt sé um markaðshorfur. Samkvæmt heimildum sem heimasíðan hefur aflað eru horfur á helstu mörkuðum fyrir frystan makríl tiltölulega góðar. Mikilvægustu markaðirnir fyrir frystan makríl hafa verið Austur-Evrópa og Afríku. Í Austur-Evrópu eru litlar birgðir til staðar og töluverð eftirspurn og útlitið þar því býsna gott. Í Afríku er útlitið svipað og í fyrra og því góðar horfur á sölu þangað.
Staðreyndin er sú að orðspor íslensks makríls hefur farið mjög batnandi. Meðhöndlun á hráefninu hefur breyst mikið til batnaðar og markaðsþekking að verða betri þannig að Íslendingar geta í síauknum mæli boðið góða vöru á hverjum markaði fyrir sig. Segja má að frystur íslenskur makríll sé að verða gjaldgengur á öllum mörkuðum og reyndar eru nýir markaðir í sjónmáli um þessar mundir.
Nokkuð öðru máli gegnir um síldina. Verð á frystri síld hefur verið hátt á mörkuðum upp á síðkastið en flest bendir til að það muni nú lækka verulega. Miklar síldarbirgðir eru fyrirliggjandi í Noregi og hefur það eðlilega áhrif á markaðsverðið. Annars er ekki mikill sölutími síldarafurða um þetta leyti árs og því eiga málin hvað síldina varðar eftir að skýrast á næstunni.