Gagn og gaman – grunnmenntaskóli SVN

Í þessari námskrá er gerð grein fyrir námskeiðum sem áætlað er að verði í boði fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar hf. næstu tvö árin frá og með haustönn 2005 til vorannar 2007

Síldarvinnslan hf. hefur starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu en langflest starfsfólk er á Norðfirði og miðast námskráin því fyrst og fremst við Norðfjörð nema annað sé tekið fram. Starfsfólk á starfstöðvum annars staðar á landinu á þess kost að sækja sambærileg námskeið í sínu heima héraði á svipuðum kjörum og starfsfólk félagsins á Norðfirði.

Námskeiðunum er skipt í þrjá flokka:

Starfstengd námskeið þar sem lögð er áhersla á þekkingu og þjálfun vegna sérhæfðra verkþátta, að styrkja starfsmenn í starfi og efla gæða- og öryggisvitund.

Í flokknum persónuleg námskeið eru ýmis námskeið bæði almenn og sérhæfð t.d. tölvu- og tungumálanámskeið. Námskeiðum þessum er ætlað að efla fólk almennt í starfi og ekki síður að styrkja stöðu þess í samfélaginu.

Tómstunda- og afþreyingarnámskeið eru valin af starfsfólki og til þess ætluð að efla og styrkja félagslega samheldni og létta lund í dagsins önn.

Greiðsla fyrir þátttöku á námskeiðum
Síldarvinnslan niðurgreiðir námskeiðskostnað, mismikið eftir eðli námskeiða og sum námskeið eru ókeypis fyrir þátttakendur. Verð hvers námskeiðs kemur fram í námskeiðslýsingu.

Styrkir
Þátttakendur geta framvísað kvittunum vegna námskeiðskostnaðar og óskað eftir styrk vegna samkvæmt reglum starfsmenntasjóða hverju sinni.

Lágmarksfjöldi
Til að hægt sé að halda námskeið þarf yfirleitt lágmarksfjölda þátttakenda og er yfirleitt miðað við 10 – 12 þátttakendur.

Námskrá ,,Gagn og gaman” – grunnmenntaskóli SVN
Ágúst 2005
Útgefandi: Síldarvinnslan hf.
Ritstjóri: Emil Björnsson
Námskráin er unnin af Fræðsluneti Austurlands

#########

,,Ánægt starfsfólk – gott starfsfólk”

Ágæta starfsfólk SVN

Á síðastliðnu hausti var ákveðið að ráðast í verkefni sem kallast ,,Markviss uppbygging starfsfólks” í samstarfi við Fræðslunet Austurlands.
Skipaður var sérstakur stýrihópur og í hann valdir fulltrúar sem endurspegluðu nokkurn veginn þversnið af starfsfólki fyrirtækisins. Megin markmið Markviss stýrihópsins var að vinna símenntunaráætlun fyrir fyrirtækið. Við undirbúning símenntunaráætlunarinnar hafði stýrihópurinn ákveðin undirmarkmið að leiðarljósi og eru þessi helstu:

• Auka færni og hæfni starfsmanna
• Uppfylla þekkingarþörf sem flestra
• Auka ánægju og vellíðan starfsmanna
• Efla starfsmenn til að takast á við breytingar
• Bæta samskipti innan fyrirtækisins

Auk þess hafði stýrihópurinn það að markmiðið að símenntunaráætlun tæki mið af að styrkja innviði félagsins, efla mannauð þess og auka þannig framlegð félagsins með aukinni þekkingu og ánægju starfsfólks.

Þessi markmið Markviss stýrihópsins falla mjög vel að ákvæðum í starfsmannastefnu SVN að hafa að leiðarljósi ,,áherslu á skilvirka stjórnun fræðslumála” þar sem áhersla er lögð á fræðslu og símenntun starfsmanna.

Ekki verður annað séð en að stýrihópurinn hafi unnið vel og skilað af sér metnaðarfullu verki sem vonandi skilar sér í ánægðu og enn hæfara starfsfólki. Ég vil að lokum þakka stýrihónum fyrir gott verk. Það er von mín að sem flestir starfsmenn nýti sér þá möguleika sem eru í boði."

Björgólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri

#########

,,Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera”

Ágæta samstarfsfólk

Í námskrá þessari er birt áætlun um námsframboð næstu tveggja ára í skóla sem hlotið hefur heitið Gagn og gaman – grunnmenntaskóli SVN.

Námskeiðunum er ætlað að koma til móts við faglegar og félagslegar þarfir starsfólks SVN. Þau eiga að vera til fróðleiks og skemmtunar en jafnframt efla starfsfólkið og innviði félagsins. Þau eru að mestu leyti valin af sérstökum Markviss stýrihópi SVN, en hópnum var falið að vinna símenntunaráætlun fyrir félagið. Hópurinn stóð fyrir áhugasviðskönnun í flestum deildum SVN og byggir námsframboð grunnmenntaskólans á niðurstöðum þeirrar könnunar.

Undirritaður mun stýra starfi Grunnmenntaskólans Gagns og gamans. Námskeiðin eru skipulögð af Fræðsluneti Austurlands sem jafnframt er í samstarfi við ýmsa aðila til að tryggja fjölbreytt og áhugavert úrval námskeiða. Námskráin er ekki ,,endanlegt plagg”. Hún á að vera breytileg eftir þörfum og óskum starfsfólks og fyrirtækis hverju sinni.

Grunnmenntaskólinn Gagn og gaman mun starfa þannig að námskeið eru auglýst og kynnt á heimasíðu SVN og með veggspjöldum. Auk þess verða fyrirhuguð námskeið kynnt með sérstöku dagatali sem starfsfólk fær í hendur.
Skráning á námskeið fyrir fram á heimasíðu SVN – www.svn.is
Einnig er hægt að skrá þátttöku hjá ,,skólastjóranum” eða á skrifstofu SVN.

Mikilvægt er að það komi fram að boðuð námskeið eru fyrst og fremst miðuð við að starfsfólk félagsins á Norðfirði geti sótt þau. Starfsfólki félagsins á öðrum stöðum á landinu stendur til boða að sækja sambærileg námskeið þar sem þau eru í boði hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum.

Ég vil hvetja starfsfólk SVN til að nýta sér óspart námskeiðin.

Grunnmenntaskóli SVN – Gagn og gaman er hér með tekinn til starfa.

Hákon Viðarsson skólastjóri


{nomultithumb}