Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í morgun með fullfermi eða liðlega 100 tonn. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt en það heyrir til tíðinda að skipstjóri í túrnum var Bjarni Már Hafsteinsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastólnum. Fyrsti stýrimaður var Hákon Bjarnason. Báðir eru þeir í yngri kantinum og meðalaldurinn í brúnni í túrnum undir 30 árum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti er um þessar mundir skipstjóri á Birtingi sem er við kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni og Jóhann Örn Jóhannsson fyrsti stýrimaður var í fríi þannig að nú reyndi á ungu mennina um borð.
Bjarni var hinn ánægðasti þegar komið var að landi. „Við erum með kjaftfullt skip og túrinn gekk mjög vel í alla staði. Við byrjuðum á að veiða ufsa á suðausturhorni Stokksnesgrunns og síðan var farið austur í Berufjarðarál og var veiðin köflótt. Þá fórum við í þorskinn á Breiðdalsgrunni og þar var mokfiskirí, algjör aðgæsluveiði. Við byrjuðum í þorskinum klukkan sex í gærmorgun og fengum 45 tonn til miðnættis. Yfirleitt var togað í 40 mínútur í senn og settum við glugga á pokann til að skammta það sem í hann kæmi. Við getum ekki verið annað en sáttir við túrinn,“ sagði Bjarni.