Birtingur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK er á leið til Neskaupstaðar með um 750 tonn af síld sem fékkst í Breiðamerkurdýpinu. Að sögn Atla Rúnars Eysteinssonar stýrimanns fékkst aflinn á þremur nóttum í níu köstum en einungis fiskast á nóttunni. Tvær fyrstu næturnar skiluðu heldur litlu og var ekki mikla síld að sjá en í gærkvöldi var meira líf en verið hefur. Þá fékk Birtingur gott kast og fleiri bátar voru að fá þokkalegan afla, meðal annars fékk Börkur NK um 300 tonna kast. „ Síldin sem veiðist þarna er mun smærri en sú síld sem fengist hefur í Breiðafirðinum“, segir Atli Rúnar,“en það hefur lítið verið að hafa fyrir vestan og því er eðlilegt að látið sé reyna á veiðar þarna.“

Það er áhöfnin á Beiti NK sem er á Birtingi um þessar mundir en Beitir er í slipp í Danmörku og hefur verið seldur til Noregs. Polar Amaroq mun síðan fá nafnið Beitir og áhöfnin flytjast yfir á það skip. Að sögn Atla kunna þeir Beitismenn vel við sig á Birtingi enda hafa flestir eða allir verið á honum áður og þykir vænt um skipið.