Núverandi Bjarni Ólafsson AK verður seldur úr landi. Ljósm. Smári Geirsson

Nýlega var upplýst að Vísir í Grindavík hefði fest kaup á skuttogaranum Bergi VE og fyrirhugað væri að selja Bjarna Ólafsson AK úr landi og Börkur II NK fengi þá nafnið Bjarni Ólafsson. Hér verður nánar greint frá þeim skipum sem hér koma við sögu.

Núverandi Bjarni Ólafsson AK var smíðaður árið 1999, en Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi festi kaup á honum árið 2015. Skipið er uppsjávarskip, 1969 brúttótonn að stærð og með 7505 hestafla vél. Burðargeta þess er tæplega 2000 tonn af kældum afla.

Árið 2016 eignaðist Síldarvinnslan rúmlega 75% í Runólfi Hallfreðssyni ehf. en fyrr á þessu ári eignaðist Síldarvinnslan félagið að öllu leyti. Tekið skal fram að samningurinn um söluna á Bjarna Ólafssyni er með ákveðnum fyrirvörum af hálfu kaupanda en fljótlega verður ljóst hvort kaupin verða staðfest. Gert er ráð fyrir að nýir eigendur fái skipið afhent á haustmánuðum.

Börkur II NK mun fá nafnið Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári Geirsson

Börkur II, sem væntanlega mun fá nafnið Bjarni Ólafsson, var smíðaður í Tyrklandi árið 2012. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 2014. Börkur II er uppsjávarskip, 3274 brúttótonn að stærð og er aðalvél þess 5873 hestöfl. Burðargetan er um 2.500 tonn af kældum afla.

Í októbermánuði sl. festi Síldarvinnslan kaup á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum í gegnum dótturfélag sitt, Berg-Hugin ehf. Um var að ræða kaup á aflaheimildum og togskipinu Bergi VE. Nú hefur togarinn Bergur verið seldur Vísi í Grindavík án aflaheimilda og verður hann afhentur nýjum eigendum í þessum mánuði. Bergur var smíðaður í Danmörku árið 1988 og er hann 569 brúttótonn að stærð með 1300 hestafla vél. Í kjölfar sölunnar á Bergi mun Bergur ehf. festa kaup á togskipinu Bergey VE af Bergi-Hugin ehf.

Bergur VE hefur verið seldur til Vísis í Grindavík. Ljósm. Þorgeir Baldursson