• segir Steinþór Hálfdanarson, sem nú hefur lokið sjómannsferlinum
Steinþór Hálfdanarson í brúnni á Gullver NS að lokinni sinni síðustu veiðferð. Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær að lokinni stuttri veiðiferð. Tíðindamaður heimasíðunnar hitti Steinþór Hálfdanarson um borð en þetta var hans síðasta sjóferð sem togaraskipstjóri. Steinþór á að baki langan og farsælan sjómannsferil og hefur lengst af starfað hjá Síldarvinnslunni. Hér fer á eftir spjallið við Steinþór á þessum tímamótum í lífi hans.

-Hvernig gekk þessi lokatúr hjá þér?

Hann gekk bara býsna vel. Við vorum einungis tvo daga að veiðum og komum að landi með 55 tonn. Og það var ekki farið út fyrir kálgarðinn heima því allan aflann fengum við hér í Seyðisfjarðardýpinu. Þetta er algjör toppfiskur sem við komum með, allt saman fallegur þorskur sem hentar örugglega vel í vinnsluna. Nú fer Gullver í slipp til Akureyrar og þar mun fara fram 40 ára skoðun á skipinu. Þetta ágæta skip er semsagt orðið 40 ára en það kom í fyrsta sinn til Seyðisfjarðar í júlímánuði 1983 og þá nýsmíðað. Gullver hefur ávallt verið gerður út frá Seyðisfirði og reynst afskaplega vel.

-Hvenær hófst þú sjómannsferilinn og á hvaða skipum hefur þú verið?

Ég fór í minn fyrsta róður 15 ára gamall með Einari Guðmundssyni á Mími NK. Þá var farið á skak við Langanes. Mér fannst sjómennskan strax spennandi. Sumarið eftir, en það hefur verið sumarið 1969, fór ég á Bjart NK. Bjartur var þá á grálúðulínu og síðan á síld í Norðursjó. Fyrir ungan strák var rosalega spennandi að fara í Norðursjóinn. Bjartur landaði mest í Skagen eins og Síldarvinnslubátarnir gerðu yfirleitt og það var auðvitað ævintýri kynnast lífinu í dönskum bæ. Ég fór í fimm sumur í Norðursjóinn, fyrst á Bjarti en síðan á Berki og á Víði.

Í stýrimannanám fór ég árið 1972 og lauk því árið 1974 og upp frá því hef ég fyrst og fremst sinnt hlutverki stýrimanns eða skipstjóra á þeim skipum sem ég hef verið á. Þegar ég var um tvítugt réðst ég á skuttogarann Barða NK en það var fyrsti skuttogari Íslendinga. Ég var þar um borð í tvö eða þrjú ár og þaðan lá leiðin á Bjart. Á Bjarti var ég í meira en tuttugu ár og líkaði vel. Hlé var gert á Bjartsdvölinni þegar Síldarvinnslan keypti togarann Blæng árið 1993 og á Blængi var ég í fimm ár eða þar til hann var seldur til Skagastrandar og fékk nafnið Örvar. Segja má að ég hafi verið seldur með skipinu því ég var á Örvari um eins árs skeið. Þegar verunni á Örvari lauk lauk fór ég á uppsjávarskipið Birting. Síðan lá leiðin á annan Birting, sem áður hét Börkur. Ég var skipstjóri á honum á kolmunna og loðnu og síðan var ég skipstjóri á laxabátnum Snæfugli í ein fjögur ár.

Af Snæfugli lá leiðin á ný yfir á Bjart. Þegar Bjartur var seldur árið 2016 fór ég yfir á Barða. Barði var síðan seldur árið 2017 og þá fór ég á Gullver. Á Gullver hef ég semsagt verið í ein fimm eða sex ár.

Þetta er dálítið skrautlegur ferill og mörg skip sem koma við sögu en mikinn meirihluta sjómannsferilsins hef ég verið á Síldarvinnsluskipum.

-Hvaða breytingar hafa helst átt sér stað á þínum sjómannsferli?

Breytingarnar eru umtalsverðar. Allur aðbúnaður um borð hefur breyst mikið til batnaðar og á nýjustu skipunum er hann til hreinnar fyrirmyndar. Einnig hefur öll tækni við veiðarnar tekið miklum framförum. Tilkoma fullkominna mæla gerir mönnum kleift að fylgjast náið með veiðarfærunum og það skiptir svo sannarlega miklu máli. Þá hafa einnig gríðarlegar breytingar átt sér stað á sviði

fjarskipta og eru framfarirnar þar hreint ótrúlegar. Þá vil ég nefna öryggismálin en á því sviði hefur allt breyst mikið til batnaðar. Nú er öryggismálunum sinnt af áhöfnum skipa af miklum áhuga en einu sinni þurfti að neyða menn til að vera með öryggishjálma og í líflínum úti á dekki. Þessi breyting er afskaplega gleðileg en áður fyrr réði kæruleysið ríkjum þegar öryggismál voru annars vegar. Loks vil ég nefna að tilkoma kvótakerfisins hefur breytt mjög miklu. Nú er öll meðferð á fiski betri en áður og hugsað er um að koma með sem best hráefni að landi. Áður fyrr var algengt að öll áhersla væri lögð á að fiska sem mest og minna hugsað um að gera sem mest verðmæti úr aflanum og framleiða gæðavöru.

Ég vil líka nefna að veiði togskipa hefur aukist til muna miðað við það sem áður var til dæmis hér á Austfjarðamiðum. Það þótti gjarnan gott þegar ég var að byrja á Bjarti að fá 10 tonn á dag. Það þætti ekki burðugt í dag. Skipum á miðunum hefur auðvitað líka fækkað mikið og hafa verður í huga að á síðustu árum hafa oft einungis tvö togskip verið að veiðum á Austfjarðamiðum, Gullver og Ljósafell. Þessi ár sem ég hef verið á Gullver hefur skipið nánast aldrei veitt fyrir norðan Langanes og heldur ekki fyrir vestan Stokksnes.

Steinþór segir að alltaf sé gaman á sjónum þegar vel fiskast. Ljósm. Ómar Bogason

-Hverjar eru þínar uppáhaldsveiðar?

Það er alltaf gaman á sjónum þegar vel fiskast. Ég verð þó að segja að nótaveiði er mest spennandi. Það eru því sjómenn á uppsjávarskipum sem upplifa mestu spennuna. En hafa verður í huga að uppsjávarskipin veiða mest með flotvörpu og þær veiðar eru oft algjör þolinmæðisvinna. Það þarf til dæmis ósjaldan mikla þolinmæði þegar verið er að kolmunnaveiðum og lengi dregið.

-Eru ekki margir skipsfélagar eftirminnilegir?

-Jú, blessaður vertu. Ég hef átt marga eftirminnilega skipsfélaga en auðvitað eru þeir misjafnlega eftirminnilegir. Sjómenn eru ólíkir rétt eins og annað fólk en ávallt skiptir miklu máli að áhöfn fiskiskips sé samhent og starfsandi um borð sé góður.

-Nú er komið að lokum sjómannsferils hjá þér, hvað munt þú taka þér fyrir hendur?

-Það verður enginn skortur á verkefnum og það fyrsta sem ég og konan mín, Sigríður Wium, munu gera er að fara suður til Reykjavíkur og halda þar upp á sjötugsafmælið mitt en ég verð sjötugur þann 28. ágúst. Það verður skemmtilegt að halda þar góða veislu með öllu mínu fólki. Ég kvíði engu í framtíðinni. Ég er ánægður með lífsstarfið og mér hefur alltaf liðið vel á sjónum. Ég er hress og kátur og yfirmáta bjartsýnn. Á meðan maður hefur góða heilsu og nóg að éta þá er engin ástæða til að kvarta.