Í dag er 17. júlí og það er merkisdagur í sögu Síldarvinnslunnar. Hinn 17. júlí árið 1958 eða fyrir réttum 60 árum var í fyrsta sinn tekið á móti hráefni til vinnslu í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar. Þennan dag átti sér einnig stað hörmulegt banaslys í þróm verksmiðjunnar þegar ungur vélvirki, Þorsteinn Jónsson, fórst. Slysið skyggði svo sannarlega á þá gleði sem ríkti vegna tilkomu nýrrar síldarverksmiðju og þeirra þáttaskila sem voru að eiga sér stað í atvinnusögu Neskaupstaðar.
 
Því miður er umrætt banaslys ekki hið eina í sögu Síldarvinnslunnar. Alls hafa 12 menn látist í starfi hjá fyrirtækinu á þeim 60 árum sem það hefur starfað. Þar af létust sjö í snjóflóðunum 20. desember 1974. Í dag kl. 16 verður efnt til stuttrar samkomu í Safnahúsinu í Neskaupstað þar sem meðal annars verða kynntar hugmyndir um samkeppni um gerð minningarreits á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar og verður reiturinn helgaður öllum þeim sem látið hafa lífið við störf hjá Síldarvinnslunni.
 
Hér á eftir fylgir minningargrein sem Hlífar Þorsteinsson ritaði um föður sinn sem fórst fyrir réttum 60 árum:
 
Þorsteinn JónssonÞorsteinn JónssonÞorsteinn Jónsson 
Fæddur í Neskaupstað 27. ágúst 1934
Látinn 17. júlí 1958
Vélvirki í Neskaupstað.
 
Starfsmaður vélaverkstæðis Dráttarbrautarinnar hf í Neskaupstað, lést af slysförum við byggingu síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar hf, SVN,  í Neskaupstað.
 
Nú í morgunsárið voru liðin 60 ár frá því strákurinn hann faðir minn, Þorsteinn Jónsson, varð fyrir slysi við byggingu síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar, SVN, og lést. Mikið kapp hafði verið í mönnum að koma þessu nýja fyrirtæki áfram og síldarverksmiðjunni í gang, þar sem stutt var eftir af síldarvertíðinni og sumarið senn á enda. Uppúr miðnætti var byrjað að landa síld úr fyrsta bátnum, nýbyggð þró sem síldinni var safnað í þoldi ekki þungann og sprakk. Pabbi var að vinna við að koma færibandi saman sem flytja átti síldina inn í verksmiðju, að ég best veit var hann með rafsuðuhjálm fyrir andlitinu og að rafsjóða við færibandið þegar þróarveggurinn féll yfir hann og síldin í þrónni þar á eftir. Hann hefur líklega ekki haft hugmynd um hvað var að gerast. Þessi dagur, 17. júlí 1958, hefur verið talinn fyrsti starfsdagur Síldarvinnslunar og því ekki hægt að minnast á þennan gleðidag hvað fyrirtækið varðar án þess að hafa slysið og þar með sorgardaginn með í þeirri umræðu. 
 
Ég leyfi mér að segja strákurinn,  þar sem hann fékk ekki nema 23 ár hér á jörð, þrátt fyrir fá ár tókst honum að framkvæma ótrúlega margt.
 
Hann var mikill fjölskyldumaður, vann mikið til þess að koma sér og sínum áfram, þurfti að eiga fyrir því sem hann keypti, var mikill útivistar- og náttúruunnandi, gekk á fjöll sumar sem vetur. Hann var mikill skíðamaður og varð m.a. Austurlandsmeistari á skíðum 1950  þá 15 ára gamall. Hann var mikill hagleiksmaður og smíðaði ásamt félaga sínum Bjarna (Banna) Björgvinssyni indíánakanó, en báturinn er úr eikargrind klæddur segldúk. Að beygja eik er ekki auðvelt, til þess þurftu þeir fyrst að smíða sér gufustokk til þess að hita eikarlistana með vatnsgufu, steinolíuprímusar voru notaðir til þess að hita vatnið inni í stokknum svo af yrði gufa, þegar eikarlistarnir voru svo nægilega heitir var hægt að beygja þá til í rétt form. Ýmsar siglingar var svo farið í á kanónum t.d. um Mývatn. Þessi kanó er enn til og hangir uppi í bílskúrnum hjá mér, mín bíður svo það verkefni að pússa hann upp og lakka að nýju. 
 
Mamma og pabbi hófu búskap í húsi móðurafa og ömmu að Urðarteigi 21 á Norðfirði, þau innréttuðu sér íbúð í útenda hússins sem þá var nýlega byggt og ekki fullklárað, eins og títt var á þeim árum. Pabbi var þá að ljúka námi í vélvirkjun og hugði á frekara nám í vélfræðum. Á þessum árum var ekki alltaf auðvelt að fá allt sem þurfti, hann smíðaði því m.a. olíukynta ketilinn sem hitaði bæði vatnið, sem rann um ofnana sem hituðu húsið, og neysluvatnið.
 
Eðlilega man ég ekki mikið eftir pabba enda var ég bara tveggja ára þegar hann dó, ég man þó eftir nokkrum punktum, einn er þegar hann var að hjálpa vini sínum Gísla Bjarnasyni (á Hólum) að laga Willisinn hans við bílskúr þeirra Hólabræðra, Willisinn var með rauðum brettum sem voru orðin upplituð. Þetta var á góðviðrisdegi sennilega rétt fyrir slysið, litli strákurinn var eitthvað að sniglast í kringum þá og fékk því verkefni en það var að mála brettin á Willisnum, sem varð skærrautt og fallegt, en það stóð ekki lengi, brettið varð fljótt eins upplitað aftur, svo litli strákurinn varð ekki ánægður. Málningin sem ég hafði fengið til þess að mála með og gerði brettið glansandi fallegt var að sjálfsögðu vatn, sem gufaði fljótt upp í góða veðrinu. 
 
Hlífar Þorsteinsson