Vestmannaey VE í slipp hjá Skipalyftunni. Ljósm: Guðmundur Alfreðsson
Aflinn í aprílmánuði hjá skipum Bergs – Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, sló fyrri met. Alls var hann 1280 tonn upp úr sjó og námu verðmæti aflans um 275 milljónum króna. Fullyrt er að þetta sé besti mánuður í sögu fyrirtækisins og almennt eru menn sammála um að vart sé unnt að gera betur.
Vestmannaey var tekin í slipp hjá Skipalyftunni á þriðjudag í síðustu viku og hafa framkvæmdir við skipið gengið einstaklega vel. Það hefur verið málað hátt og lágt, öxuldregið, skipt um skrúfublöð og sett tvö ný botnstykki ásamt annarri slippvinnu. Skipið verður væntanlega sjósett í dag og mun halda til veiða í nótt eða í fyrramálið.
Á meðan Vestmannaey hefur verið í slippnum hefur Bergey rótfiskað. Skipið er að landa fullfermi (70 tonnum) af ufsa í dag eftir tveggja daga veiðiferð og landaði áður fullfermi af ýsu einnig eftir tveggja daga veiðiferð.