Bergey VE. Ljósm. Guðmudur AlfreðssonBergey VE. Ljósm. Guðmudur Alfreðsson

Um þessar mundir fagnar útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. 45 ára afmæli sínu. Félagið var stofnað í desembermánuði 1972 af útgerðum Bergs VE 44 og Hugins VE 55 sem voru í eigu Kristins Pálssonar og Guðmundar Inga Guðmundssonar. Síldarvinnslan hf. festi kaup á útgerðarfélaginu árið 2012.
 
Afmælisárið hófst með sjómannaverkfalli sem stóð fyrstu sjö vikur ársins. Haldið var á miðin að loknu verkfalli hinn 19. febrúar. Mjög góð aflabrögð voru yfir vertíðartímann og lönduðu skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, tvisvar til þrisvar í viku fram á vorið. Bergey fór síðan í slipp í maí og Vestmannaey í vélarupptekt í júní.
 
Að lokinni vertíð héldu Eyjarnar áfram að afla vel. Júlímánuður var til dæmis afar góður og afli skipanna yfir þúsund tonn í þeim mánuði. Haustið reyndist heldur rysjótt en þá voru skipin mest að veiðum fyrir austan land. Skipin komu síðan til hafnar í Vestmannaeyjum 11. og 14. desember og þar með voru áhafnirnar komnar í kærkomið jóla- og áramótafrí.
 
Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonHeildarafli skipanna tveggja á árinu var 8.575 tonn og aflaverðmæti rétt tæplega tveir milljarðar króna. Hér er um að ræða nýtt aflamet hjá skipum félagsins. Fyrra met er frá árinu 2008 en þá var aflinn 8.493 tonn hjá þremur skipum; Vestmannaey, Bergey og Smáey. Það sem gerir hið nýja aflamet einkar athyglisvert er að skipin tvö voru einungis gerð út í 10 mánuði á árinu, frá 19. febrúar til 14. desember. Afli á sóknardag á árinu var 22 tonn hjá hvoru skipi.
 
Á þessu afmælisári lét Magnús Kristinsson af störfum hjá félaginu um mitt sumar eftir 44 ára starf. Við starfi hans tók Arnar Richardsson.
 
Þau ánægjulegu tímamót urðu á árinu að skrifað var undir samning við skipasmíðastöðina Vard Aukra í Noregi um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir félagið. Þessum nýju skipum er ætlað að leysa núverandi Vestmannaey og Bergey af hólmi. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar og verða þau með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum og allur búnaður um borð verður hinn fullkomnasti. Áætlað er að skipin verði afhent kaupanda í mars- og maímánuði árið 2019.