Beitir NK að landa kolmunna á Seyðisfirði. Ljósm. Eyrún GuðmundsdóttirBeitir NK að landa kolmunna á Seyðisfirði. Ljósm. Eyrún GuðmundsdóttirBeitir NK kom til Seyðisfjarðar í morgun með um 3000 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Beitir landaði einnig síðasta túr á Seyðisfirði og þá komu 3047 tonn upp úr skipinu. Þetta eru án efa stærstu farmar sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra og var hann býsna ánægður með kolmunnaveiðina að undanförnu. „Veiðin hefur gengið mjög vel upp á síðkastið og höfum við verið að fá 600-700 tonn á sólarhring. Aflinn í þessum túr fékkst til dæmis í sex holum. Við vorum nú að veiðum um 60 sjómílur suðaustur úr Akrabergi en svo heitir syðsti oddi Færeyja,“ sagði Tómas.
 
Sömu sögu er að segja af Berki NK. Veiðarnar hjá honum hafa gengið afar vel og er hann nú á leið til Neskaupstaðar með 2200 tonn. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í sex holum suðaustur af Færeyjum.
 
Hákon EA landaði 1360 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær en Bjarni Ólafsson AK er hættur kolmunnaveiðum að sinni.