Barði NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kemur væntanlega inn til löndunar á fimmtudagsmorgun. Skipið hefur lagt stund á grálúðuveiðar í yfirstandandi veiðiferð og kom reyndar inn til millilöndunar hinn 22. júní. Ljóst er að lokið verður við að veiða grálúðukvóta skipsins í veiðiferðinni.

Aflinn hefur verið jafn og góður allan túrinn og veðurblíða hefur leikið við skipverja. Fyrir liggur að hér er um mettúr að ræða hjá skipinu hvað varðar aflaverðmæti og er áhöfnin ánægð með árangurinn.

Næsta verkefni Barða felst í makrílveiðum. Gert er ráð fyrir að skipið haldi til veiða á makríl hinn 10. júlí og leggi stund á þær veiðar í júlí- og ágústmánuði.