Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum mettúr. Skipið hélt í veiðiferðina 1. nóvember sl. og millilandaði í Neskaupstað 14. nóvember. Aflinn í túrnum var 800 tonn upp úr sjó að verðmæti 162 milljónir króna, en meginhluti aflans var ufsi. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að vel hafi veiðst allan túrinn en veðrið hafi hins vegar verið leiðinlegt. „Þetta er mettúr hjá okkur bæði hvað varðar afla og aflaverðmæti. Í sannleika sagt gekk allt ótrúlega vel hjá okkur þrátt fyrir veðrið. Veðurfarið var eins og það getur orðið verst á haustin, nánast enginn dagur undir 15 metrum á sekúndu. Við vorum svo til allan tímann að veiðum út af Austur- og Suðausturlandi nema þrjá daga á Reykjanesgrunni en við flúðum þangað vegna illviðris eystra. Nánast allan túrinn vorum við í ufsa og segja má að veiðar og vinnsla hafi gengið eins og best verður á kosið. Skipið hefur ótrúlega veiðigetu og við erum yfirleitt aldrei að draga allan sólarhringinn. Þá eru menn að venjast vinnsludekkinu og gengur vinnslan býsna vel. Við erum í sannleika sagt hæstánægðir með þennan túr sem nú var að ljúka, „ sagði Theodór.