Vilhelm Þorsteinsson EA landaði um 3.200 tonnum af kolmunna í Neskaupstað um helgina. Ljósm. Smári Geirsson

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa sinnt kolmunnavinnslu af krafti að undanförnu og hefur vinnslan gengið vel. Skipin koma með hráefnið vel kælt að landi og er framleitt gæðamjöl úr kolmunnanum en hann gefur hins vegar lítið lýsi enda horaður um þetta leyti árs. Búið er að selja verulegt magn af mjöli og verða mjölskip tíðir gestir í höfnunum á næstunni. Eftir helgina er til dæmis von á skipi sem mun taka 1.400 – 1.500 tonn í Neskaupstað og 1.200 tonn á Seyðisfirði. Um síðustu helgi landaði Vilhelm Þorsteinsson EA um 3.200 tonnum af kolmunna í Neskaupstað og Margrét EA kom til Seyðisfjarðar í gærkvöldi með tæplega 1.800 tonn. Þá er Barði NK á leiðinni til Seyðisfjarðar með 2.200 tonn og mun koma þangað skömmu eftir hádegi í dag. Heimasíðan heyrði hljóðið í Þorkeli Péturssyni, skipstjóra á Barða, og spurði fyrst hvar aflinn hefði fengist. „Við vorum að veiðum alveg við miðlínuna á milli Færeyja og Skotlands eða á hinu svonefnda gráa svæði. Aflinn fékkst í níu holum og var aldrei dregið lengi eða frá sjö og upp í tólf tíma. Oftast fengust á milli 200 og 300 tonn í holi. Kolmunninn var tekinn tiltölulega ofarlega eða uppi á 120 metrum eða svo. Það var fínasta veður allan tímann. Aflabrögðin eru heldur rólegri en var áður en það er svo sannarlega engin ástæða til að kvarta. Það getur enginn kvartað þegar báturinn er fylltur á þremur til fjórum sólarhringum og það fást yfir 500 tonn að jafnaði á sólarhring,“ segir Þorkell.

Heimasíðan ræddi við Sindra Sigurðsson, verkefna- og þróunarstjóri Síldarvinnslunnar, og spurði hann hvað hefði breyst varðandi hráefnið sem berst til fiskimjölsverksmiðjanna. „Það er engum blöðum um það að fletta að skipakostur og meðhöndlun afla hefur farið stórlega fram á undanförnum áratugum. Hér áður fyrr var afli lítið sem ekkert kældur og kolmunninn sem hráefni mjög misjafn að gæðum. Í aðstæðum líkt og nú, þar sem um 500 mílna sigling er með aflann að landi hefur þetta úrslitaáhrif hvað varðar gæði mjöls. Gæðavísar hráefnisins bera þess glögglega merki. Hér áður var ekki algengt að unnið væri gæðamjöl úr förmum sem berast langt að en nú er það frekar regla en undantekning. Það er til að mynda mikill munur á því að geyma aflann um borð í skipi þegar beðið er löndunar í stað þess að landa honum í hráefnisgeymslur verksmiðjanna og láta hann bíða vinnslu þar. Í aflahrotum líkt og á yfirstandandi kolmunnavertíð er það töluvert verkefni að halda hráefnis- og afurðabirgðum innan skynsamlegra marka. Við framleiðum rúm 500 tonn af mjöli á dag í Neskaupstað og á Seyðisfirði og þetta mjöl þarf að gerlamæla og efnagreina áður en því er skipað út. Við notumst við NIR eða einskonar litrófsgreini til að mæla eðliseiginleika mjölsins eins og til dæmis prótein, vatn og fitu. Með slíkum mælingum fáum við niðurstöðu á fáeinum sekúndum og getum á grundvelli þeirra flokkað mjölið í gæðaflokka strax. Þegar mjölinu er síðan skipað út eru sýni tekin til mælinga hjá Matís og er mjölið verðlagt eftir efnagreiningum sem þar eru framkvæmdar. Nú stefnir í útskipanir á næstu vikum þar sem hátt í tíu þúsund tonn af mjöli er undir og það verður því nægum verkefnum að sinna á þessu sviði,“ segir Sindri.