Heimasíðan ræddi í morgun við Þorkel Pétursson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK og spurði hann hvað væri að frétta af makrílskipunum í Smugunni. „Við erum hressari núna en við höfum verið síðustu daga. Við erum loksins komnir í fisk og við og Beitir erum búnir að taka eitt hol. Hvort skip fékk 100 tonn og er aflanum dælt um borð hjá okkur. Þetta er dálítið síldarblandað, ég hugsa að um 30% af aflanum sé síld. Á móti kemur að makríllinn sem fæst hér er 470-480 gramma fiskur, mun stærri en við höfum verið að fá að undanförnu. Þegar við köstuðum vorum við búnir að leita í þrjá sólarhringa ásamt fleiri skipum með hverfandi árangri. Þetta var því mikið reiðileysi og menn eru ósköp fegnir að vera búnir að finna eitthvað. Við erum núna um 460 mílur frá Neskaupstað þannig að þetta er býsna norðarlega. Ef við hefðum ekki fundið þetta hefðum við farið enn norðar, en vonandi gerist þess ekki þörf. Auðvitað er svekkjandi að upplifa trega veiði en hafa ber í huga að í fyrra hófst ekki almennileg veiði í Smugunni fyrr en um mánaðamótin júlí- ágúst,“ segir Þorkell.