Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Sigurjón Mikael Jónuson

Í morgun var mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn eins og oft áður. Verið var að landa úr frystitogaranum Blængi NK sem kom með fullfermi að landi á mánudaginn og eins var verið að landa makríl úr Berki NK sem kom með tæp 700 tonn í gær. Makríllinn er ýmist hausaður eða flakaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þá er Hákon EA væntanlegur með makrílafla. Þar að auki er verið að skipa út 1.400 tonnum af frystum makríl og loðnuhrognum í flutningaskip.

Þessa stundina gengur heldur erfiðlega að finna makrílinn en veiðin hefur verið sveiflukennd að undanförnu. Þessa stundina eru skipin að leita suðaustur af landinu og vonandi finnst fiskur fljótlega. Síldarvinnsluskipin og Samherjaskipin, sem eru í veiðisamstarfi með þeim, hafa veitt yfir 20.000 tonn af makríl það sem af er vertíðinni.

Þá skal þess getið að ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergur VE eru allir í landi og verða það yfir verslunarmannahelgina. Eins verður frí í öllum vinnslustöðvum Síldarvinnslunnar yfir helgina.