Eins og oft áður var mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn í morgun. Börkur NK var kominn með 1.570 tonn af síld sem landað var til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Einnig var Beitir NK kominn með rúm 2.000 tonn af kolmunna sem landað var í fiskimjölsverksmiðjuna og ísfisktogarinn Vestmannaey VE var að landa fullfermi að auki.
Síldarafli Barkar fékkst í Syðri holu í Héraðsflóadýpinu í fjórum holum. Gert er ráð fyrir að 30% aflans sé íslensk sumargotssíld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra sýnir síldin ekki á sér neitt fararsnið. „Hún hringlar þarna á þessu svæði og það verður að segjast að þessi veiði er eins þægileg og hún getur verið,“ segir Hjörvar.
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að kolmunnaaflinn hafi fengist í fimm holum. Minnsta holið var 240 tonn en það stærsta 540. „Við hófum veiðarnar norðarlega í Rósagarðinum en færðum okkur suðureftir og vorum syðst í Rósagarðinum undir lokin. Þarna er dálítið ryk að sjá á köflum og ég geri ráð fyrir því að þessum veiðum verði haldið áfram þarna. Við eigum hins vegar að halda til síldveiða strax að löndun lokinni,“ segir Sturla.
Vestmannaey kom til löndunar snemma í morgun en blandaður afli, sem hún kom með, fékkst að mestu austan við Vestmannaeyjar, á Pétursey, Vík og Öræfagrunni. „Við tókum síðan eitt hol hérna fyrir austan. Reiknað er með að veiða áfram hér eystra og landa á ný á miðvikudag,“ segir Birgir Þór Sverrisson skipstjóri.