Nú um helgina hefur svo sannarlega verið líflegt í Norðfjarðarhöfn. Segja má að þar hafi verið örtröð skipa og þau skip sem ekki hafa komist að hafa legið úti á firði. Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir liggja í höfninni að afloknum makrílveiðum og þar um borð er eðlilegu viðhaldi sinnt. Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að landa frystri síld beint um borð í flutningaskip og Hákon EA kom með fullfermi af frystum makríl. Þá var verið að gera frystitogarann Barða kláran til veiðiferðar. Til viðbótar við þessi skip komu smærri bátar til löndunar og hvert sem litið var á hafnarsvæðinu voru menn í önnum.
Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að síldveiðum austur af Grænlandi þar sem þau hafa partrollað. Í upphafi veiðiferðarinnar lögðu skipin stund á makrílveiðar en fljótlega sneru þau sér að síldinni. Mikið af síld var að sjá á þeim slóðum sem skipin toguðu og komu þau bæði með fullfermi til löndunar. Afli Polar Princess var um 1100 tonn og Polar Amaroq 650 tonn.