Börkur NK til vinstri að landa makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Til hægri er Bjartur NK sem kemur til löndunar eftir góðan túr. Ljósm. Hákon Viðarsson.Um þetta leyti árs eru mikil umsvif í Norðfjarðarhöfn. Skip koma og fara og að auki hefur verið  unnið að gerð nýs hafnargarðs sem er hluti af umfangsmiklum framkvæmdum sem staðið hafa yfir frá síðasta ári. Makríl- og síldarvertíð er hafin og koma veiðiskipin reglulega til hafnar með hráefni fyrir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Þá koma vinnsluskipin til löndunar með frystar makríl- og síldarafurðir en þeim er komið fyrir í frystigeymslum Síldarvinnslunnar. Þessu fylgja tíðar komur flutningaskipa sem lesta framleiðsluna og flytja hana til viðeigandi markaðslanda.

Fyrir utan makríl- og síldarskipin koma togarar og bátar til löndunar ásamt erlendum loðnuskipum sem landað hafa afla sínum síðustu daga. Strandveiðibátarnir sem landað hafa í Norðfjarðarhöfn að undanförnu eru 11 talsins og hafa fiskað misjafnlega vel.