Það hefur verið góð síldveiði skammt austur af landinu að undanförnu og hafa skipin verið að fá stór hol eftir að hafa dregið stutt. Dæmi um það er að Beitir NK fékk 1.320 tonn eftir að hafa dregið í 40 mínútur. Síldin sem fæst er stór og góð og hentar mjög vel til vinnslu. Börkur NK lét nýlega úr höfn í Neskaupstað en bíður með að hefja veiðar. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að nauðsynlegt sé að stýra veiðunum í samræmi við framleiðslugetu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar. „Við lönduðum 600 tonnum af makríl en síðan var 1.320 tonnum af síld landað úr Beiti og nú er verið að vinna rúmlega 1.200 tonn úr Margréti EA. Þetta eru stórir farmar og það tekur 30-36 klukkustundir að vinna hvern farm. Það hefur yfirleitt verið auðvelt að ná í síldina að undanförnu. Lóðningarnar hafa verið sterkar og þær hlaupa saman annað slagið. Nú líður væntanlega að því að síldin fari að ganga frá landinu og þá þarf að elta hana austur í haf. Síldin sem fengist hefur hér austur af landinu að undanförnu er stór og yfir 380 grömm að þyngd að meðaltali. Þetta er ábyggilega úrvalssíld til vinnslu. Heyrst hefur að færeysk skip séu að veiða síld hér norður í hafinu sem er enn stærri, eða um 450 grömm. Það virðist vera mikil síld á ferðinni hér við land núna,“ segir Hálfdan.