Bergey VE kemur til Eyja með fullfermi úr síðustu veiðiferð fiskveiðiársins sl. þriðjudag. Ljósm. Tói VídóBergey VE kemur til Eyja með fullfermi úr síðustu veiðiferð
fiskveiðiársins sl. þriðjudag. Ljósm. Tói Vídó
Ágúsmánuður hefur svo sannarlega verið góður hjá Vestmannaey VE og Bergey VE en það er Bergur-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar, sem gerir skipin út. Afli skipanna samtals í mánuðinum er 829 tonn af slægðum fiski en til samanburðar veiddu þau 661 tonn í fyrra. Heildarafli hvors skips á fiskveiðiárinu fer yfir 5000 tonn af óslægðum fiski og hefur aflinn aldrei verið meiri. Fyrir utan þann kvóta sem er á skipunum hefur Bergur-Huginn leigt um 3000 þorskígildi til sín á fiskveiðiárinu sem flutt hafa verið til Eyja ofan af landi. Til að fræðast nánar um gang veiðanna hjá skipum Bergs-Hugins á fiskveiðiárinu sló heimasíðan á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar skipstjóra á Vestmannaey. „Þetta ár hefur verið einstaklega gott hjá Vestmannaey og Bergey og ágústmánuður sem nú er að líða hefur verið alger toppmánuður, sérstaklega hvað varðar ýsuveiði. Eftir þjóðhátíð fórum við einn túr þar sem veidd var ýsa út af Reykjanesi og gekk það eins og í sögu. Síðan veiddum við ýsuna mikið við Eyjar. Í síðustu túrum mánaðarins byrjuðum við gjarnan í ýsunni við Eyjar en síðan var farið austur eftir og endað í þorski í Litladýpi. Í þessum veiðiferðum var lögð áhersla á að tína upp ýmsar tegundir sem þurftu að nást fyrir lok fiskveiðiársins eins og til dæmis kola, steinbít, löngu o.fl. Sannast sagna hefur ýsuveiðin í sumar verið svakalega góð en það eru fáir sem leggja áherslu á hana. Við þurftum stundum að hafa dálítið fyrir því að finna ýsuna en þegar hún kom í leitirnar gekk veiðin afbragðsvel. Á kvótaárinu hafa  Vestmannaey og Bergey veitt um 1900 tonn af óslægðri ýsu hvort skip og veiðin hefur aldrei verið meiri hjá okkur. Það eru örugglega ekki mörg íslensk skip sem hafa borið að landi jafn mikinn ýsuafla á einu ári. Það er líka athyglisvert að skip Síldarvinnslunnar hafa veitt um 4.600 tonn af ýsu á árinu en heildarársaflinn við landið er um 43.000 tonn. Við höfum auðvitað líka fiskað óhemju af þorski miðað við það sem við erum vanir,“ segir Birgir.
 
Birgir tekur fram að alls ekki sé róið mjög stíft á Eyjunum tveimur. „Það er alls ekki stíft sótt og oft góð hlé á milli róðra. Vetmannaey og Bergey eru togarar af smæstu gerð og það væri ekki hægt að fiska svona á skipin ef ekki væri á þeim góður mannskapur. Það eru 12 í áhöfn á hvoru skipi og oft er gert að tugum tonna á hverjum sólarhring. Þetta væri ekki hægt nema með hörkuköllum,“ segir Birgir að lokum.