Kolmunnaveiðin á gráa svæðinu hefur verið misjöfn að undanförnu. Það hefur verið mikill straumur á miðunum og það hefur gert skipunum erfitt fyrir. Beitir NK lauk við að landa um 3000 tonnum í Neskaupstað í gærkvöldi, Bjarni Ólafsson AK er á landleið til Seyðisfjarðar með 1750 tonn og Börkur NK er að veiðum. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að aflinn hafi fengist í fimm holum. „Holin voru misjafnlega stór eða frá 240 tonnum og upp í 500 tonn. Þetta gekk þokkalega en straumurinn gerði okkur erfitt fyrir. Við erum að koma með þriðja fullfermistúrinn frá því að veiðarnar hófust um miðjan mánuð þannig að það er varla ástæða til að kvarta mikið,“ segir Runólfur.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir að veiðin sé alveg þokkaleg en ekki sé þó um sprengiveiði að ræða. „Við erum komnir með tæp 900 tonn eftir tvö hol. Við fengum 550 tonn í gær eftir að hafa dregið í eina 17 tíma og það er ekki hægt að kvarta undan því. Frá því að veiðarnar hófust núna hafa þær farið fram sunnarlega á gráa svæðinu. Það eru mörg skip búin að draga mikið hérna. Veiðin hefur verið heldur lítil í nótt. Oftast er það þannig að kolmunnaveiðin á þessum slóðum er skörpust fyrsta hálfa mánuðinn eða svo en síðan dregur heldur úr. Við sjáum til hvernig þetta þróast,“ segir Hálfdan.