Höfnin í Neskaupstað en þar er oft þröngt á þingi.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonUm þessar mundir eru framkvæmdir að hefjast við gerð Norðfjarðarganga og á sama tíma er unnið að stækkun og breytingum á höfninni í Neskaupstað. Báðar þessir framkvæmdir eru samfélagslega mikilvægar og hafa mikla þýðingu fyrir Síldarvinnsluna og starfsemi sem tengist henni.

Í vikunni var hafist handa við uppsetningu vinnubúða á Eskifirði fyrir gangagerðarmenn en stefnt er að því að hefja framkvæmdir Eskifjarðarmegin um miðjan nóvember. Framkvæmdir við gangagerðina Norðfjarðarmegin munu hefjast eftir áramót en nú er unnið að gerð nýrrar brúar yfir Norðfjarðará og lagningu vegarslóða að gangamunnanum. Gert er ráð fyrir að 35-40 manns muni starfa við gangagerðina, helmingurinn íslenskir starfsmenn Suðurverks og helmingurinn tékkneskir starfsmenn Metrostav. Göngin verða 7,9 km löng og eru verklok áætluð í september 2017. Tilboð verktakafyrirtækjanna í gerð ganganna hljóðaði upp á 9,3 milljarða króna. 

Hin nýju Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngumálum á Austurlandi því með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hvað snertir Síldarvinnsluna ber að hafa í huga að þó langmest af afurðum sé flutt á brott með skipum er drjúgum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá Reyðarfirði og Seyðisfirði. Að undanförnu hafa um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað eða um 20 gámar á viku að jafnaði. Flutningabílarnir sem flytja gámana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem ferðin yfir fjallveginn er bæði erfið og áhættusöm. Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til flutninga á afurðum Síldarvinnslunnar landleiðina frá Neskaupstað auk þess sem kostnaður og áhætta vegna þeirra mun minnka mikið.

Fyrr á þessu ári hófust framkvæmdir við stækkun og umbætur á Norðfjarðarhöfn og munu þær hafa í för með sér afar jákvæðar breytingar fyrir starfsemi Síldarvinnslunnar. Vörur sem fóru um Norðfjarðarhöfn á árinu 2012 voru 140.040 tonn og voru þær mestmegnis sjávarafurðir.  Aflinn sem landað var á árinu nam 223.182 tonnum, þannig að Norðfjarðarhöfn er á meðal helstu fiskihafna landsins. Vegna afar mikillar umferðar skipa og báta um höfnina hafa oft komið upp erfiðar aðstæður þannig að þurft hefur að forfæra skip og fargangsraða afgreiðslu þeirra. Af þessum ástæðum er orðið mjög brýnt að stækka höfnina og gera á henni ýmsar lagfæringar þannig að yfirstandandi framkvæmdir eru hinar þörfustu. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 550 milljónir króna og fela þær meðal annars í sér eftirfarandi: Öll aðstaða í höfninni verður rýmri en nú er, viðlegurými skipa verður stækkað, ný smábátahöfn verður gerð og höfnin verður dýpkuð. Framkvæmdirnar munu bæta mjög þá aðstöðu sem umsvif Síldarvinnslunnar byggja á og reyndar mun höfnin verða rýmri og betri fyrir alla notendur hennar.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdirnar við höfnina taki um tvö ár og mun töluvert rask verða áberandi á hafnarsvæðinu á meðan þær standa yfir. Það er hafnarsjóður Fjarðabyggðar sem stendur fyrir framkvæmdunum.