Miklar byggingaframkvæmdir eru hafnar eða fyrirhugaðar á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Tandraberg ehf. er að reisa brettasmiðju, Vélaverkstæðið G. Skúlason er að byggja nýtt lager- og viðgerðahús, undirbúningsframkvæmdir við stækkun fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar eru hafnar og Fjarðanet hf. áformar að reisa nýja netagerð á hafnarsvæðinu. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir þessum framkvæmdum.
Brettasmiðja Tandrabergs. Framkvæmdir við brettasmiðjuna hófust í febrúar sl. en þá var grafið fyrir húsinu. Síðan var gert hlé á framkvæmdum en þær hófust á ný í aprílmánuði og segist Einar B. Kristjánsson framkvæmdastjóri gera ráð fyrir því að starfsemi geti hafist í húsinu í byrjun ágústmánaðar. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er mikil þörf fyrir það að sögn Einars. Mun verða unnt að framleiða þar 600 bretti á dag miðað við að unnið sé einungis í dagvinnu. Tandraberg hefur á undanförnum árum smíðað um 60.000 bretti á ári og eru helstu viðskiptavinirnir Síldarvinnslan, Eskja og Loðnuvinnslan. Á milli 70 og 80% af framleiðslunni fer til notkunar hjá Síldarvinnslunni og er sýnt að það hlutfall mun hækka á næstu árum.
Lager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Vélaverkstæði G. Skúlasonar er að reisa 300 fermetra lager- og viðgerðahús á athafnasvæði sínu við Norðfjarðarhöfn. Guðmundur Skúlason framkvæmdastjóri segir að brýnt sé fyrir fyrirtækið að stækka við sig enda þurfi það sífellt að taka inn stærri búnað og tæki til viðgerða. Telur Guðmundur að jafnvel hefði verið þörf fyrir enn stærra hús en nú er í byggingu. Framkvæmdir við bygginguna hófust um miðjan desember og ráðgert er að þeim ljúki með haustinu. „Það eru miklar annir framundan hjá okkur og varla tími til að koma sér fyrir í nýju húsnæði fyrr en í haust,“ segir Guðmundur.
Viðbygging við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Um þessar mundir er verið að hefja undirbúningsframkvæmdir við byggingu sem rísa á norðan við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Byggingin mun verða um 1000 fermetrar að stærð og er hún reist til að stækka vinnslurými versins. Í tengslum við þessar byggingaframkvæmdir verður eldra húsnæði breytt þannig að rými aukist fyrir kælipressur. Þessi nýja bygging verður með svipuðu sniði og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra, en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð. Báðar þessar byggingar eru liður í því að auka afköst fiskiðjuversins.
Ný netagerð Fjarðanets hf. Fjarðanet hf. hefur sótt um lóð á væntanlegri uppfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunar. Þar er ráðgert að reisa nýja netagerð og verður húsið 85m langt og 26m breitt eða 2200 fermetrar. Framan við húsið verður stálþil þannig að þau skip sem þurfa þjónustu netagerðarinnar geta lagst þar upp að. Skipulagsferli vegna þessara framkvæmda mun væntanlega ljúka í ágústmánuði og þá verður hafist handa við að gera uppfyllinguna. Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri Fjarðanets vonast til að eiginlegar byggingaframkvæmdir geti síðan hafist um mitt næsta ár. Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun fá inni í nýju netagerðinni; netaverkstæðið, gúmmíbátaþjónustan og að auki verður aðstaða til að geyma nætur og önnur veiðarfæri innan dyra. „Það er gríðarleg þörf fyrir þetta nýja hús, ekki síst vegna þess að bæði skip og veiðarfæri fara sístækkandi og það útheimtir stærri og betri aðstöðu,“ segir Jón Einar. „Við ætlum okkur að bjóða upp á fyrirmyndaraðstöðu í framtíðinni og mikilvægur liður í því er þessi væntanlega bygging,“sagði Jón Einar að lokum.