Vinningstillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar
Í síðasta mánuði var gerð grein fyrir niðurstöðu samkeppni um gerð minningarreits á austasta hluta grunns gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Síldarvinnslan efndi til samkeppninnar en reiturinn verður helgaður þeim sem látist hafa í störfum hjá fyrirtækinu.
Alls bárust átta tillögur um gerð reitsins og fjallaði sérstök dómnefnd um þær. Niðurstaða dómnefndarinnar var samhljóða um að tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar hafi borið sigur úr býtum en einnig var það mat nefndarinnar að hluti tillögu Ólafíu Zoëga skyldi hljóta verðlaun ásamt sigurtillögunni.
Kristján Breiðfjörð Svavarsson
Þegar hefur verið sagt frá úrslitum samkeppninnar hér á heimasíðunni en full ástæða þykir að greina ítarlegar frá vinningstillögunum og höfundum þeirra en það er athyglisverð staðreynd að báðir höfundarnir eru búsettir í Noregi; Kristján á Svalbarða og Ólafía í Björgvin.
Kristján Breiðfjörð Svavarsson er fæddur á Akranesi árið 1981 en uppalinn á Húsavík. Hann hefur búið í Noregi frá árinu 2009. Kristján lagði stund á nám í arkitektúr í Listaháskólanum en útskrifaðist sem landslagsarkitekt í Tromsø í Noregi árið 2015. Í rúmlega eitt ár hefur Kristján verið búsettur í Longyearbyen á Svalbarða en þar starfar kærastan hans sem tannlæknir.
Vinningstillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar
Þegar Kristján er spurður að því hvort hann þekki til í Neskaupstað segir hann að það sé takmarkað. „Ég kom annað slagið til Neskaupstaðar og lék þar knattspyrnu með yngri flokkum Völsungs og eins hef ég komið þangað í eftirminnilegt brúðkaup. Síðan þekki ég allmarga Norðfirðinga og hef þannig fylgst með því sem hefur verið að gerast á staðnum. Áður en ég hóf að vinna að tillögunni um minningarreitinn kynnti ég mér söguna og sérstaklega hafði sagan um snjóflóðin djúpstæð áhrif á mig. Snjóflóðin er óhugnanlegur atburður sem án efa situr alla tíð í hugum þeirra sem upplifðu þau. Mér fannst minningarreiturinn vera heillandi verkefni,“ segir Kristján.
Dómnefndin hreifst af tillögu Kristjáns um minningarreitinn og í umsögn hennar um tillöguna segir eftirfarandi: „Stílhrein útfærsla með sterka staðarvitund; endurtekin hringlaga form endurspegla lögun tanka fiskimjölsverksmiðja og gamla gufuketilsins. Öldur í grasi líkjast öldum skafrennings og brimi sjávar með skírskotun til snjóflóðsins og hafsins. Hér er ekki einungis um að ræða minningarreit heldur fallegan áningastað, jafnt fyrir kyrrðarstund sem útivist.“
Ólafía Zoëga
Ólafía Zoëga er Norðfirðingur í húð og hár. Hún er fædd árið 1980, dóttir Jóhanns Zoëga og Hafdísar Jónsdóttur. Ólafía lauk námi í arkitektúr í Björgvin í Noregi árið 2010 og hefur verið búsett þar og starfað sem arkitekt frá þeim tíma. Helsta verkefni Ólafíu er að teikna hús en hún hefur mikla ánægju af því að vinna með landslagsarkitektum og gerir mikið af því. Þegar rætt er um samkeppnina um minningarreitinn segist Ólafía strax hafa fengið áhuga á verkefninu. „Ég er Norðfirðingur og auðvitað höfðaði þetta verkefni til mín. Ég vissi strax hvað mig langaði til að gera. Að mínu mati var grundvallaratriði að tengja reitinn við sjóinn og síðan auðvitað snjóflóðinu 1974. Þess vegna kallaði ég útfærslu mína „Á milli flóðs og fjöru,“ segir Ólafía.
Tillaga Ólafíu gerir ráð fyrir tengingu minningarreitsins við hafið.
Dómnefndin taldi tillögu Ólafíu afar áhugaverða, annars vegar vegna vel útfærðrar tengingar minningarreitsins við hafið og hins vegar vegna heitisins á útfærslu hennar. Þess vegna var ákveðið að skipta verðlaunafénu á milli vinningstillögunnar og tillögu Ólafíu; 400 þúsund krónur komu í hlut Kristjáns Breiðfjörð og 200 þúsund krónur í hlut Ólafíu.
Tillaga Ólafíu Zoëga.