Börkur NK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonSlegið var á þráðinn til Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns á Berki í morgun og hann inntur frétta af loðnumiðunum. „Við erum að toga og það er frekar rólegt yfir þessu eins og er. Þetta er búið að vera heldur dapurt í nótt en var ágætt í gær,“ sagði Ólafur en Börkur var að toga út af Héraðsflóa, rétt utan við kantinn. „Við vorum heppnir í gær. Vorum fyrstir á svæði þar sem var töluvert að sjá og náðum 870 tonnum í tveimur holum. Drógum 6-7 tíma í hvoru holi. Í gærkvöldi varð þetta hins vegar daprara. Loðnan heldur sig við yfirborð á nóttunni og þá er erfiðara fyrir okkur að ná henni í troll. Við erum komnir með 1800-1900 tonn en það hefur tekið tíma að fá þennan afla. Við eins og önnur skip erum að keyra fram og til baka og leita að loðnunni. Stundum er keyrt í einhverjar fréttir en oftar en ekki kemur lítið út úr því sem menn finna. Það er óvenjulegt ástand á loðnunni og hún er sennilega enn að mestu fyrir norðan land þar sem nótaskipin hafa verið að reyna fyrir sér – þau eru flest vestur undir Grímsey og út af Axarfirði en það hefur einnig gengið misjafnlega hjá þeim.“
 
„Það spáir brælu í kvöld en hugsanlega verður samt hægt að veiða með trolli þó nótabátar geti ekki verið að. Við bíðum eftir að þetta ástand lagist. Þetta hlýtur að lagast innan tíðar, allavega getur þetta ekki versnað mikið,“ sagði Ólafur að lokum.