Beitir NK á landleið með fullfermi.  Ljósm. Þorgeir Baldursson

Um 7.500 tonn af kolmunna hafa nú borist til Neskaupstaðar en þar hafa kolmunnaskipin Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Hákon EA landað að undanförnu.  Allur aflinn hefur farið til mjöl- og lýsisvinnslu að undanskyldum tæplega 750 tonnum af sjófrystum kolmunna sem Hákon kom með að landi.

Beitir NK er nú á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi eða 2.100 tonn og er væntanlegur þangað í kvöld.  Er þetta fyrsti kolmunnafarmurinn á vertíðinni sem berst til Seyðisfjarðar.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti segir að kolmunnaveiðin á gráa svæðinu við Færeyjar sé dálítið gloppótt en suma daga sé hörkugóð veiði.  Beitir fyllti í fyrradag og fékk samtals 1.000 tonn þann sólarhringinn.  Þegar veiðin er döpur toga skipin gjarnan í 12 tíma eða svo en í góðri veiði er togað í 3-5 tíma.