Íslenska sumargotssíldin sem nú veiðist þykir henta vel til vinnslu. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson

Veiði á íslenskri sumargotssíld hefur verið misjöfn upp á síðkastið. Veiði var góð en síðustu daga hefur hægst á. Eins og þekkt er geta aflabrögð á síldveiðum tekið snöggum breytingum. Lokið var við að landa 1.200 tonnum úr Beiti NK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað aðfaranótt miðvikudags en vinnsla var að hefjast á ný í morgun þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1.410 tonn. Börkur hefur verið að veiðum og sló heimasíðan á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra til að leita frétta. „Veiðarnar hafa gengið heldur hægt núna að undanförnu en það getur breyst fyrirvaralaust. Á þessum veiðum koma góðir dagar og slakari dagar. Við erum að veiðum djúpt vestur af Faxaflóa og hefur skipum á miðunum farið fjölgandi síðustu dagana. Segja má að allt sé hefðbundið hvað veiðarnar varðar, veitt er á hefðbundnum slóðum miðað við síðustu ár og ekkert sem kemur á óvart. Síldin sem fæst er býsna góð. Þetta er 300 – 330 gramma síld og átan í henni er afar lítil. Þá ber að fagna því að sýkingin sem hefur hrjáð þessa síld lengi virðist vera horfin eða nánast horfin. Það er gleðiefni. Reyndar hefur þessi sýking verið misjöfn á milli ára, en vonandi eru menn að verða lausir við hana,“ segir Hálfdan.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, er ánægður með síldina sem hráefni. „Síldin sem við höfum verið að fá er góð og hentar vel til vinnslunnar. Þá ber að nefna að það sést vart sýking í henni. Úr Beiti voru framleidd roðlaus flök og samflök og síðan var hluti aflans heilfrystur. Úr Vilhelm Þorsteinssyni verða hins vegar eingöngu framleidd samflök. Það er vart annað hægt að segja en að þessi síldarvertíð hafi gengið vel til þessa,“ segir Geir Sigurpáll.