DSC03108

Beitir NK kemur til löndunar. Ljósm: Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

Eftir tvo daufa daga á makrílmiðunum hefur veiðin glæðst mikið. Í Neskaupstað er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK og Beitir NK kom í hádeginu með 780 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að síðari hluti veiðiferðarinnar hafi gengið eins og í sögu. „Við byrjuðum á að taka tvö hol fyrir austan, þar var fiskur en hálfgerð bræla og auk þess var aflinn þar síldarblandaður. Þá færðum við okkur suður í Breiðamerkurdýpi og þar tókum við tvö tveggja tíma hol. Í fyrra holinu fengum við 400 tonn og 180 tonn í því síðara. Þarna var mikið að sjá og staðreyndin er sú að vart verður við makríl víða,“ sagði Tómas. Að sögn Tómasar höfðu bátar streymt á miðin í Breiðamerkurdýpinu og voru að gera það ágætt. Þarna var Börkur kominn og einnig Hákon, Lundey og Venus.