Í dag er lýsisskip að lesta 2.000 tonn í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári Geirsson

Um helgin komu tvö tvö skip sem lestuðu mjöl til Neskaupstaðar og eitt skip að auki sem lestaði lýsi. Mjölskipin tóku 1.200 tonn hvort og nú er verið að skipa út 2.000 tonnum í lýsisskipið. Verðmæti afurðanna, sem þessi þrjú skip taka, er um 1,5 milljarður króna. Það hafa verið 21 mjölútskipun í Neskaupstað það sem af er ári auk þess sem verulegt magn hefur verið flutt á bílum til fóðurverksmiðjunnar Laxár á Akureyri. Tvær 1.200 tonna mjölsútskipanir eru síðan á dagskrá síðar í þessum mánuði. Í Neskaupstað er búið að skipa út 27.700 tonnum af mjöli og 11.400 tonnum af lýsi það sem af er árinu.

Heimasíðan ræddi við Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og spurði hvort yfirstandandi ár væri annasamt í fiskimjölsverksmiðjunni. „Já, það má svo sannarlega segja. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hefur verksmiðjan hér í Neskaupstað tekið á móti 145 þúsund tonnum af hráefni og það er jafn mikið og báðar verksmiðjur fyrirtækisins tóku á móti allt árið í fyrra. Verksmiðjurnar tvær, hér í Neskaupstað og á Seyðisfirði, hafa tekið á móti 237 þúsund tonnum það sem af er þessu ári og þar af er hlutur Seyðisfjarðarverksmiðjunnar 92 þúsund tonn. Þetta ár verður svo sannarlega stórt hjá okkur í þessum iðnaði. Hjá okkur hér í Neskaupstað hefur ekki einungis mikið verið að gera í framleiðslunni heldur hefur einnig verið unnið að framkvæmdum við verksmiðjuna. Verið er að stækka verksmiðjuna þannig að hún mun afkasta 2.000 tonnum á sólarhring og að auki er byggð lítil verksmiðja sem afkastar 380 tonnum. Nú fer að líða að því að litla verksmiðjan verði prufukeyrð en stækkunin verður vart tilbúin fyrr en í janúarmánuði. Hráefnið sem verksmiðjan á Seyðisfirði tekur á móti er fyrst og fremst kolmunni og loðna, en verksmiðjan í Neskaupstað tekur á móti kolmunna og að auki loðnu, síld og makríl frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Það hefur verið mikil vinnsla í fiskiðjuverinu og allur afskurður þaðan og allt sem flokkast frá kemur til vinnslu í verksmiðjunni,“ segir Hafþór.