Það voru oft miklar annir í vinnslustöðvum Síldarvinnslunnar á nýliðnu ári. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir mótteknum afla hjá þeim.
Fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði tóku samtals á móti 261.264 tonnum af hráefni. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 172.457 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 88.807 tonnum. Til verksmiðjunnar í Neskaupstað bárust 64.306 tonn af kolmunna, 53.590 tonn af loðnu, tæplega 33.000 tonn af síld og tæplega 22.000 tonn af makríl. Verksmiðjan á Seyðisfirði fékk til vinnslu 56.663 tonn af kolmunna og tæplega 32.000 tonn af loðnu.
Fiskiðjuverið í Neskaupstað tók á móti rúmlega 61.000 tonnum á árinu. Móttekin loðna var 17.335 tonn, en síðan var tekið á móti 26.893 tonnum af síld og 16.870 tonnum af makríl.
Frystihúsið á Seyðisfirði tók á móti 2.189 tonnum af hráefni til vinnslu á árinu.