Þetta er nokkur orðaleikur en Síldarvinnslan hf. tekur í kvöld við aflaskipinu Súlunni EA en gengið var frá þeim viðskiptum fyrir meira en ári síðan. Þar er kveðið á um afhendingu að lokinni vetrarloðnuvertíð 2007. Elsta Súlan var smíðuð í Gautavík í Noregi árið 1902 fyrir Konráð Hjálmarsson í Mjóafirði og bar einkennnisstafina SU-300.
Líklega var það 1906 sem skipið var selt til útgerðar Ottós Tuliníusar á Akureyri þannig að rétt öld er síðan Súlan hvarf að austan þar til hún er komin aftur. Það er eins með skipið og hamarinn smiðsins sem alltaf var sá sami hversu oft sem skipt var um skaft og haus,búið er að endurnýja skipið nokkrum sinnum á þessari öld og nafnið hefur skipt um eigendur . Þannig keypti Sigurður Bjarnason útgerðarmaður skipið 1938,sonur hans Leó Sigurðsson gerði skipið út og endurnýjaði tvisvar,og 1988 keyptu þeir Sverrir,sonur Leós, og Bjarni Bjarnason skipstjóri útgerðina og hafa rekið hana þar til nú að skip með nafninu Súlan kemur austur aftur. Hver veit nema hún fái einkennisstafina SU-300 eins og nafna hennar fyrir 100 árum. Nú er skarð fyrir skildi á Akureyri þegar kennileiti er horfið af torfunefinu og hefur verið haft í flimtingum að í hvert skipti sem leið að vertíð hafi þurft að framkvæma umhverfismat og grenndarkynningu á Akureyri. Útgerð Súlunnar og Síldarvinnslan hf. hafa átt mjög gott og náið samstarf í einhver 15 ár og hefur Súlan haft löndunarsamning allan þann tíma og það verið báðum aðilum til hagsbóta. Stjórn og starfsmenn Síldarvinnslunnar þakka ánægjulegt samstarf og samvinnu og óska fyrrum eigendum allra heilla og hamingju í framtíðinni.