Löndun úr ísfisktogaranum Bjarti NK hófst á Seyðisfirði kl. 4 sl. nótt og lauk í dag. Afli skipsins var 83 tonn, mest þorskur og ufsi. Bjartur hélt til veiða strax að löndun lokinni og er ráðgert að hann komi á ný til löndunar nk. fimmtudag. Þegar löndun lauk úr Bjarti var Vestmannaey VE komin til hafnar á Seyðisfirði. Þar verður landað um 20 tonnum af þorski úr skipinu en síðan mun það halda á ný til veiða og væntanlega landa í Vestmannaeyjum fyrir komandi helgi. Landanir þessara skipa tryggja að unnið er á fullum afköstum í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ómar Bogason hjá Gullbergi segir að nóg sé að gera og ekki skorti hráefni þó svo að Seyðisfjarðartogarinn Gullver NS sé í slipp um þessar mundir. „Hér dettur ekki úr klukkustund í vinnslunni en við erum mest í að vinna þorsk og ufsa,“ sagði Ómar. „Þetta eru mikil viðbrigði fyrir okkur því venjulega höfum við þurft að loka fiskvinnslunni þegar Gullver hefur farið í slipp, en nú er öldin önnur sem betur fer,“ sagði Ómar að lokum.