Vinnsla á loðnuhrognum hefur verið nær samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað síðustu dagana. Löndun úr Beiti NK lauk í gær. Hann var með 1700 tonn og voru hrogn unnin úr öllum farminum. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan í morgun með um 1200 tonn og er verið að vinna aflann úr honum. Þá eru Börkur NK og Hákon EA á austurleið með hrognaloðnu. Börkur er með 1500 tonn og Hákon með um 1200.
Slegið var á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki í morgun en þá var skipið að nálgast Rauðanúp. „Við fengum þennan afla á Breiðafirðinum en það er sannast sagna ekki mikið af loðnu þarna á ferðinni. Við vorum á veiðum í þrjá daga og köstuðum 14 sinnum þannig að aflinn var 500 – 600 tonn á dag. Nú er bræla framundan og þá vonandi breytist eitthvað til hins betra,“ sagði Hjörvar. „Það er óhætt að segja að vertíðirnar í fyrra og í ár hafi verið hálfundarlegar. Hvað veldur því veit enginn með vissu. Kannski er hvalurinn að hafa mikil áhrif en það er allt morandi í hval á miðunum en áður hefur ekki verið mikið um hval í loðnugöngum fyrir sunnan og vestan land. Við fundum til dæmis tvær álitlegar torfur í gær en það var ekki nokkur leið að kasta vegna hvals. Annars virðist loðna vera víða. Það fékk bátur loðnu við Eyjar í gær og í morgun keyrðum við yfir ágætis torfu út af Húnaflóa. Þá hefur frést af loðnu við Grímsey. Beitir er nú á vesturleið og ætlar að kíkja á loðnuna út af Húnaflóanum. Við skulum vona að það rætist eitthvað úr þessu,“ sagði Hjörvar að lokum.