Sæbjörg, skip Landsbjargar, liggur nú í höfn í Neskaupstað þar sem sjómönnum er boðið upp á öryggisnámskeið á vegum Slysavarnaskóla sjómanna. Í gær fór kennsla fram á tveimur námskeiðum; annars vegar eins dags námskeiði fyrir smábátasjómenn þar sem þátttakendur voru fimm og hins vegar tveggja daga endurmenntunarnámskeiði fyrir sjómenn á stærri skipum þar sem þátttakendur voru fjórtán. Annað endurmenntunarnámskeið fyrir sjómenn á stærri skipum mun síðan hefjast í dag. Sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar hafa fjölmennt á þessi námskeið og er það svo sannarlega þægilegra fyrir þá að fá skólann til sín en að þurfa ferðast um langan veg til að geta sótt sér viðkomandi menntun.
Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, sagði að námskeiðin hafi gengið vel og það væri ánægjulegt að geta komið og boðið upp á fræðsluna á heimaslóðum sjómannanna. Sæbjörgin hefur ekki siglt á milli hafna til námskeiðahalds síðan 2008 en þá voru fjárveitingar til skólahaldsins skornar niður. Hins vegar hafa kennarar Slysavarnaskóla sjómanna farið víða og kennt á námskeiðum. Nú er Sæbjörg á leið í slipp á Akureyri og þá var tækifærið notað og komið við á nokkrum höfnum og boðið upp á námskeið um borð. Fyrst var komið við í Vestmannaeyjum og nú liggur skipið í Neskaupstað. Þvínæst verður haldið til Seyðisfjarðar og loks til Akureyrar. Hilmar segir að aðsóknin á öryggisnámskeið sjómanna hafi aukist verulega eftir hrun og meðal annars hafi margir sótt sérhæfð námskeið fyrir þá sem ætla sér að stunda sjómennsku erlendis.