Ragnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor og Igor Sancristobal haffræðingur. Ljósm. Smári GeirssonRagnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor og
Igor Sancristobal haffræðingur. Ljósm. Smári Geirsson
Sl. þriðjudag komu skipstjórnarmenn á uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar, Loðnuvinnslunnar og Samherja saman á fræðslunámskeiði í Neskaupstað. Á námskeiðinu var fjallað um hið svonefnda Catsat upplýsingakerfi en kerfið veitir fjölþættar upplýsingar um skilyrði í hafinu og aflar þeirra meðal annars með gerfihnöttum og sérstökum mælibaujum sem finna má í öllum heimsins höfum. Einkum var fjallað um upplýsingar sem kerfið veitir og geta komið að gagni við makrílveiðar. Leiðbeinandinn á námskeiðinu var Spánverjinn Igor Sancristobal, en hann er aðalhaffræðingur hafrannsóknastofnunarinnar CLS, sem vinnur að hafrannsóknum um heim allan og hefur meðal annars þróað Catsat kerfið.
 
Það er íslenska fyrirtækið Akor ehf sem er sölu- og þjónustuaðili fyrir Catsat í okkar heimshluta en Akor annast reyndar markaðssetningu á kerfinu í norður- og austanverðri Evrópu og einnig í vestanverðri Afríku. Ragnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor var á námskeiðinu í Neskaupstað og sagði að það væri einkar mikilvægt fyrir þá sem selja og þjónusta kerfið að fá tækifæri til að hitta skipstjórnarmenn sem nota það.
 
Dæmi um upplýsingar Catsat kerfið veitir: Til vinstri á tölvuskjánum sést hitastig á yfirborði sjávar en til hægri er þverskurðarmynd sem sýnir hitastig og hitaskil í hafinu.Dæmi um upplýsingar Catsat kerfið veitir: Til vinstri á tölvuskjánum sést hitastig á yfirborði sjávar en til hægri er þverskurðarmynd sem sýnir hitastig og hitaskil í hafinu.Einn þeirra sem sótti námskeiðið á þriðjudag var Tómas Kárason skipstjóri á Beiti NK. Heimasíðan ræddi við hann og spurði fyrst hve lengi Síldarvinnsluskipin hefðu notað Catsat kerfið. „Við erum búnir að nota þetta kerfi í ein átta ár og það veitir okkur margvíslegar upplýsingar um nánast hvað sem er í sjónum. Í gegnum kerfið fáum við til dæmis upplýsingar um strauma, hitastig, hæðir og lægðir í sjónum, átumagn og fleira. Þetta er komið í allmörg íslensk skip og reynslan virðist almennt vera góð. Nú er komin afladagbók inn í kerfið og hún gefur okkur kost á að skoða hvernig aðstæður í sjónum hafa áhrif á veiðar. Ef þú ert að fiska vel við ákveðnar aðstæður þá gerir kerfið þér kleift að leita á ný að sambærilegum aðstæðum í hafinu. Nú er ætlunin að bjóða upp á þá þjónustu hjá kerfinu að setja upp líklega staði fyrir veiðar á makríl og það væri gaman að taka þátt í að þróa hana. Ég hef þá trú að menn munu smátt og smátt auka notkunina á Catsat kerfinu því það er í alla staði athyglisvert. Þá skemmir ekki fyrir að fá góða fræðslu um kerfið og njóta góðrar þjónustu við það,“ segir Tómas.