Frá rafmagnsöryggisnámskeiðinu. Sigurður Friðrik Jónsson lengst til hægri. Ljósm. Guðjón B. Magnússon.Sl. þriðjudag var haldið námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en með rafvæðingu verksmiðjunnar hafa aðstæður starfsmanna breyst verulega og talin full þörf á að efna til fræðslu um hinar nýju aðstæður.  Í þessu sambandi skal þess getið að eftir að verksmiðjan var að fullu rafvædd er aflnotkun hennar 26MW eða svipað afl og allur Akureyrarbær notar. 

Kennari á námskeiðinu var Sigurður Friðrik Jónsson rafmagnstæknifræðingur og rafveitustjóri álvers ALCOA-Fjarðaáls. Á námskeiðinu var lögð sérstök áhersla á örugg vinnubrögð í kringum háspennubúnað en starfsmenn þurfa að fylgja öryggisstjórnunarkerfi í rekstri slíks búnaðar sem í reynd er gæðakerfi samþykkt af Mannvirkjastofnun. Farið var yfir verklag í kringum háspennubúnað, hættur vegna ljósboga ásamt því að fjallað var almennt um rafmagnsöryggismál. Námskeiðinu var skipt upp þannig að að almennir starfsmenn sátu fyrri hluta þess en síðari hlutann sátu einungis rafvirkjar og vaktformenn.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri segir að námskeiðið hafi heppnast afar vel og verið bæði gagnlegt og fræðandi. „Eftir rafvæðingu verksmiðjunnar eru starfsmennirnir að vinna við aðrar aðstæður en áður og við annan tækjabúnað og það er nauðsynlegt að læra að umgangast þennan nýja búnað þannig að fyllsta öryggis sé gætt“, sagði Guðjón.