Frystri síld landað í Neskaupstað sl. helgi. Ljósm. Hákon ErnusonFrystri síld landað í Neskaupstað sl. helgi. Ljósm. Hákon ErnusonNú er góðri makrílvertíð um það bil að ljúka hjá Síldarvinnslunni. Í dag er þó verið að landa 650 tonnum af frystum makríl úr Hákoni EA en varla er gert ráð fyrir að miklum makrílafla verði landað til viðbótar á vertíðinni. Löndun á síld er hins vegar hafin af krafti í Neskaupstað og í gærkvöldi var lokið við að landa frystri síld úr grænlensku skipunum Polar Amaroq og Polar Princess. Fór afli þeirra, samtals um 1800 tonn, beint um borð í flutningaskip í höfninni.
 
Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar, segir að mikill munur sé á þessari vertíð og fyrri vertíðum hvað varðar útskipun á afurðum. Nú séu frystigeymslurnar nánast fullar en á síðustu árum hafi afurðirnar farið jafnt og þétt. „Lokun Rússlandsmarkaðar og Nígeríumarkaðar hafa alvarleg áhrif á okkar starfsemi,“ sagði Heimir. „Frá okkur hafa þó farið um 11.000 tonn í ágústmánuði sl. en til samanburðar fóru 14.000 tonn seinni tvær vikurnar í ágústmánuði í fyrra. Þetta gengur afar hægt fyrir sig um þessar mundir. Við erum að senda frá okkur um 1000 tonn í gámum sem fara til Hollands og þaðan til Tyrklands og Egyptalands og í dag er að koma skip sem tekur 500 tonn til Póllands. Þetta eru mikil viðbrigði frá síðustu árum þegar útflutningurinn gekk hratt og vel fyrir sig og unnt var að framleiða af fullum krafti því ávallt var geymslurými fyrir frystar afurðir,“ sagði Heimir að lokum.