Í morgun var verið að landa makríl úr Beiti NK til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Afli hans var 1.300 tonn. Klukkan fimm í morgun sigldi Bjarni Ólafsson AK inn Norðfjörð með 1.020 tonn og bíður löndunar. Er gert ráð fyrir að löndun úr honum hefjist um eða upp úr hádegi. Börkur NK er síðan á landleið úr Smugunni með 1.420 tonn þannig að það er svo sannarlega nóg að gera í makrílnum. Heimasíðan ræddi stuttlega við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, en Bjarni var í slipp í upphafi vertíðar og var að koma úr sínum fyrsta túr. „Þetta gekk alveg ágætlega. Við tókum fimm hol, settum afla úr tveimur fyrstu holunum í Beiti og við fengum síðan afla úr einu holi frá honum. Samstarf skipanna sem landa hjá Síldarvinnslunni gengur afar vel. Fiskurinn sem við fengum er dálítið blandaður. Hann var stór í fyrstu holunum en heldur minni í þeim seinni. Það hefur gengið ágætlega að veiða þarna í Smugunni það sem af er en mikið væri gott ef vart yrði við veiðanlegan makríl í íslenskri lögsögu. Það hlýtur að vera makríll í einhverjum mæli hér í lögsögunni en spurning er hvort hann er í veiðanlegu formi,“ segir Runólfur.

Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Löndun að ljúka úr Beiti NK og Bjarni Ólafsson AK bíður löndunar. Ljósm: Smári Geirsson