
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé nokkuð blönduð en það gangi vel að vinna hana. Síldin er bæði flökuð og heilfryst. Jón Gunnar segir að gert verði hlé á vinnslunni á föstudagskvöld og þá fái starfsfólk fiskiðjuversins helgarfrí.
Börkur NK kom til hafnar í gær undan brælu og eins til að taka nýtt troll. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að það sé töluvert af síld að sjá á miðunum. „Við komum með 510 tonn sem við fengum í tveimur holum í Seyðisfjarðardýpinu um 40-50 mílur frá landi. Nú má gera ráð fyrir að síldin fari að færa sig í austurátt og þá þarf að elta hana eitthvað lengra,“ sagði Hálfdan.