Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verða birt nokkur sögubrot.
- Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók til starfa í júlímánuði 1958 en þá var reyndar byggingarframkvæmdum ekki fyllilega lokið. Á fyrsta starfsárinu tók verksmiðjan á móti 4.075 tonnum af síld og Neskaupstaður var kominn á kortið sem síldarbær. Mikið var rætt um hve umferð síldarbáta hefði aukist með tilkomu verksmiðjunnar og sérstaklega þótti tignarlegt að sjá þá sigla inn Norðfjörð drekkhlaðna. Til samanburðar skal þess getið að Beitir NK, nýjasta uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, getur komið með 3.200 tonn að landi í einni veiðiferð.
- Fyrst var tekið á móti loðnu í Neskaupstað árið 1968, en þá bárust 7.759 tonn til verksmiðju Síldarvinnslunnar. Í nokkur ár höfðu ýmsir velt því fyrir sér hvort ekki væri unnt að veiða loðnuna þegar hún gengi suður með Austfjörðum í þeim tilgangi að bæta nýtingu á fiskimjölsverksmiðjunum eystra. Hins vegar höfðu loðnuveiðar til þessa fyrst og fremst farið fram úti fyrir suðurströnd landsins og vestur af landinu og þá þótti of langt að sigla með aflann til Austfjarðahaf.
- Fyrsti hefðbundni skuttogari landsmanna var Barði NK sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970. Barði hélt til veiða í fyrsta sinn 11. febrúar 1971. Fyrsta árið fiskaði Barði 3.040 tonn, aflaverðmæti hans var 40 milljónir króna á þávirði og hásetahluturinn 790 þúsund krónur. Allar þær vonir sem bundnar voru við Barða í upphafi rættust og rúmlega það.
- Árið 1979 var komið að því að endurnýja skuttogarann Barða. Síldarvinnslan seldi skipið úr landi og áformaði að kaupa nýjan Barða frá Frakklandi en sá var systurskip Birtings sem Síldarvinnslan hafði fest kaup á árið 1977. Þessi áform fyrirtækisins ollu miklu fjaðrafoki og reyndust stjórnvöld mjög andsnúin þeim. Kjartan Jóhannsson sjávarútvegsráðherra setti til dæmis reglugerð sem hafði þau áhrif að ekki fékkst lán úr Fiskveiðasjóði til kaupa á nýju skipi í stað Barða og var hart tekist á um þetta mál á pólitískum vettvangi. Síldarvinnslan var hins vegar staðráðin í að fá hið nýja skip og tryggði sér lán hjá enskum banka til skipakaupanna. Með þeim hætti var skipið keypt framhjá kerfinu eins og það var orðað. Þarna fór fyrirtækið nýjar leiðir og þótti tefla nokkuð djarft. Í hinum pólitísku deilum um skipakaupin beitti Lúðvík Jósepsson sér gegn Kjartani sjávarútvegsráðherra og þegar niðurstaða málsins lá fyrir lögðu gárungarnir til að nýja skipið myndi heita Lúðvík Barði Kjartan.
- Í septembermánuði 1986 var Beitir NK að loðnuveiðum um 120 mílur norður af Siglufirði. Í einu kastinu á þessum slóðum lokaðist lax inni í nótinni og hann var engin smásmíði. Laxinn reyndist vera 116 cm langur og 22 kíló eða 44 pund að þyngd. Í ljós kom að þetta var næst stærsti lax sem veiðst hafði hér við land. Einungis Grímseyjarlaxinn svonefndi var stærri en hann var 49 pund. Áhöfnin á Beiti ákvað að gefa Náttúrugripasafninu í Neskaupstað laxinn og var hann stoppaður upp. Laxinn hefur síðan verið til sýnis á safninu og vakið mikla athygli safngesta.