DSC04614 2

Fulltrúar heimamanna undirrita samning. Sitjandi við borðið frá vinstri: Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Á bakvið þá standa frá vinstri: Valdimar Hermannsson bæjarfulltrúi, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir bæjarfulltrúi. Ljósm: Smári Geirsson

Í morgun voru undirritaðir samningar um endurbætur á Norðfjarðarflugvelli en sveitarfélagið Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. koma að framkvæmdunum með myndarlegum fjárframlögum. Framkvæmdirnar fela í sér að skipt verður um burðarlag vallarins og síðan sett á hann klæðning. Markmiðið með þessum framkvæmdum er að bæta flugvöllinn þannig að hann geti allt árið gegnt hlutverki sjúkraflugvallar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og aukið þannig öryggi íbúanna eystra og allra þeirra sjómanna sem leggja stund á veiðar á Austfjarðamiðum.

                Samningur Innanríkisráðuneytisins og Fjarðabyggðar gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti 158 milljónir króna. Á fjárlögum ríkisins er varið 82 milljónum til verksins en heimamenn leggja fram 76 milljónir; sveitarfélagið Fjarðabyggð 26 milljónir og Samvinnufélag útgerðarmanna og Síldarvinnslan samtals 50 milljónir.

DSC04617 2

Innanríkisráðherra og bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrita samning um endurbyggingu Norðfjarðarflugvallar. Ljósm: Smári Geirsson

                Undirritun samninganna fór fram í flugstöðinni á Norðfjarðarflugvelli og sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra við það tilefni að þetta verkefni væri óvenjulegt hvað varðaði þátttöku heimamanna í fjármögnun þess. Þá benti ráðherrann á að með auknum ferðamannastraumi gæti öryggisflugvöllur eins og Norðfjarðarflugvöllur gegnt sífellt mikilvægara hlutverki.  Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Isavia tók undir orð ráðherra og taldi að þeir samningar sem undirritaðir voru í morgun gætu orðið fyrirmynd annarra samninga og eins benti hann á að í framtíðinni lægju margvísleg tækifæri í góðum flugvelli.

                Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar  fögnuðu mjög undirritun samninganna ásamt fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Lesin var upp bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem fram kom að það skyti skökku við að á sama tíma og verið væri að tryggja heilsárs öryggisflugvöll á Austurlandi væri öryggisflugbraut lokað á flugvellinum í Reykjavík.

                Héraðsverk mun vinna að framkvæmdunum við flugvöllinn en þær voru boðnar út og mun Isavia annast umsjón með þeim. Munu undirbúningsframkvæmdir hefjast í vetur en ráðgert er að framkvæmdum ljúki í júlí á næsta ári.