Norsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsk loðnuskip lönduðu 6.500 tonnum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað fyrr í þessum mánuði. Fyrsti báturinn landaði afla 5. febrúar en sá síðasti hinn 17. þannig að allur þessi afli kom á land á tveimur vikum. Megnið af aflanum fór til manneldisvinnslu en fyrir kom að of mikil áta var í loðnunni og þá var henni landað í fiskimjölsverksmiðjuna.  
Loðnulandanir norsku bátanna skiptu miklu máli og sköpuðu verkefni fyrir fiskvinnslufyrirtækin á sama tíma og íslenski flotinn lá bundinn við bryggju vegna sjómannaverkfallsins. Vinnslan á þessum tíma var einkar mikilvæg fyrir starfsfólkið sem annars hefði verið aðgerðalaust heima.
 
Alls höfðu norsk skip heimild til að veiða 59.500 tonn af loðnu við Ísland á vertíðinni og gengu veiðarnar vel. Nú er veiðum þeirra lokið og þau hafa kvatt Íslandsmið að sinni.