Norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn.Síðdegis í dag er norska loðnuskipið Norafjell væntanlegt til Neskaupstaðar með 850 tonn. Loðnan fékkst á Skjálfanda og er gert ráð fyrir að aflinn fari til manneldisvinnslu. Norafjell er annað tveggja norskra loðnuskipa sem tilkynnt hafa um afla á Skjálfanda en tvö önnur norsk skip eru þar að veiðum og er annað þeirra með kast á síðunni þegar þetta er ritað.

Börkur NK er nýkominn á miðin á Skjálfanda en var ekki búinn að kasta þegar haft var samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra. Höfðu þeir á Berki orðið varir við einhverja loðnu á miðunum og upplýsti Sigurbergur að veður væri sæmilegt á þessum slóðum.

Veiði er töluverð á miðunum fyrir suðvestan land og var Polar Amaroq að dæla úr 500-600 tonna kasti um tvöleytið. Eins voru Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að kasta og fá afla.