Að undanförnu hafa allmörg norsk loðnuskip legið í Norðfjarðarhöfn. Hafa skipin komið með afla til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og síðan beðið betra veðurs á loðnumiðunum. Sjómennirnir um borð í skipunum hafa haft heldur lítið fyrir stafni í landlegunni og því bauð Síldarvinnslan áhöfnum þeirra fimm skipa sem lágu í höfninni í gær að heimsækja Safnahúsið í Neskaupstað. Þáðu Norðmennirnir boðið með þökkum og eftir að hafa fræðst um söguleg tengsl Noregs og Austfjarða skoðuðu þeir Tryggvasafn, Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar og Náttúrugripasafnið af áhuga. Að lokinni safnaskoðun var síðan boðið til dýrindis kaffi- og kökuveislu á Hótel Hildibrand.
Það voru áhafnir skipanna Krossfjord, Havsnurp, Ligrunn, Birkeland og Havfisk sem nutu safnaheimsóknarinnar og kaffiveislunnar í gær og létu sjómennirnir þau orð falla að boð Síldarvinnslunnar hefði komið þeim mjög á óvart en dagurinn hefði verið einkar fróðlegur og ánægjulegur. Þökkuðu þeir fyrir sig áður en haldið var um borð í skipin á ný og skömmu síðar héldu flest þeirra til veiða.