Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Björn Steinbekk

Nú hafa íslensku loðnuskipin hafið nótaveiði og var ágæt veiði í gær og í nótt. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 415 tonn sem fengust í einu kasti við Hvalnes. Þá er Börkur NK á landleið með 1.550 tonn sem fengust í fjórum köstum. Börkur endaði veiðina í nótt með stóru kasti. Þá hafa borist fréttir af ágætri veiði norskra loðnuskipa í gær.

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir að nótaveiðin hafi byrjað vel. „Þetta gekk bara fínt og menn eru mjög sáttir. Það er talsvert að sjá af loðnu á stóru svæði og það ætti að aflast vel á næstunni ef veðurguðirnir verða til friðs. Þetta er stór og falleg loðna, um 36 stk. í kílóinu. Í fyrstu þremur köstunum var aflinn 60% kall en í síðasta kastinu var 60% kelling. Fyrstu þrjú köstin í túrnum voru tekin á Lónsbugtinni en það síðasta var út af Stokksnesinu. Síðasta kastið var mjög gott og það er óvenjulegt að fá svo gott næturkast. Það verður að segjast að það er bara bjart yfir mönnum hér um borð,“ segir Hjörvar.