Beitir NK hefur verið í slipp á Akureyri. Nú er hann tilbúinn að halda til makrílveiða nýmálaður og flottur. Ljósm. Karl Eskil Pálsson

Nú er verið að gera Síldarvinnsluskipin klár til makrílveiða. Gert er ráð fyrir að Börkur NK og Barði NK haldi til veiða á morgun og Beitir NK mun sigla í kjölfarið. Beitir hefur verið í slipp á Akureyri að undanförnu en mun væntanlega leggja af stað til Neskaupstaðar í dag. Um var að ræða reglubundinn slipp þar sem ýmsu viðhaldi var sinnt auk þess sem skipið var málað hátt og lágt. Sigurður Valgeir Jóhannesson skipstjóri segir að siglt verði austur, veiðarfærin tekin og síðan haldið rakleiðis til makrílleitar.

Síldarvinnsluskipin þrjú munu verða í veiðisamstarfi með Vilhelm Þorsteinssyni EA og Margréti EA. Reynsla er komin á slíkt veiðisamstarf og hefur það gefist vel þegar mið eru fjarlæg og ekki um kraftfiskirí að ræða. Skipin skiptast þá á að fara með afla að landi og er aflinn þá ferskur og hentar vel til manneldisvinnslu. Áhöfn hvers skips greiddi atkvæði um þátttöku í veiðisamstarfinu og samþykktu þær allar að taka þátt.

Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, um vertíðina. „Menn eru bara bjartsýnir held ég. Þrjú skip frá Brim héldu nýverið til leitar. Þau hófu leitina í íslenskri lögsögu en nú eru þau komin í Smuguna. Það var veiði í endaðan júní í Smugunni í fyrra. Spurningin er hvort makríllinn gengur ekki inn í lögsöguna þegar á líður en þar var veiði síðari hluta sumars í fyrra. Annars er makríllinn brellinn og aldrei að vita hvað mun gerast. Þetta er alltaf spennandi. Nú hugsa menn um makrílinn og hegðun hans en staðreyndin er sú að fiskurinn leitar einfaldlega þangað sem ætið er. Ef hann fær ekki nóg í sig í Smugunni þá mun hann örugglega koma inn í lögsöguna,“ segir Hálfdan.