Það hefur gengið vel hjá Vestmannaeyjarskipunum Bergi VE og Vestmannaey VE að undanförnu. Þau hafa staldrað stutt við á miðunum og komið að landi með fullfermi. Heimasíðan ræddi við Arnar Richardsson, rekstrarstjóra útgerðanna. “Segja má að þetta hafi gengið eins og í sögu og það er gjarnan landað fullfermi annan hvern dag. Skipin fóru til dæmis út eftir löndun sl. fimmtudag og þau komu til löndunar á laugardagsmorgun. Farið var út eftir löndunina þá og komið á ný til löndunar í morgun. Síðan er stefnt að löndun á ný á miðvikudag. Þetta gengur svona fyrir sig og það eru allir glaðir. Veitt hefur verið í nágrenni Eyjanna, mest í Háfadýpi og á Pétursey. Aflinn á laugardag var mest ýsa og þorskur en í dag eru skipin með ýsu, þorsk og ufsa. Við reynum að keyra á ýsu og ufsa eins og við getum en þorskurinn kemur alltaf með. Þetta er vertíðartími og þrusugangur í þessu,” segir Arnar.