Norðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon ErnusonNorðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta
frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu dagana hafa makríl- og síldarskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar lagt meiri áherslu á síldveiðar en gert hefur verið fyrr á vertíðinni. Til þessa hefur yfirleitt öll áhersla verið lögð á að ná makrílkvótanum og síldin einungis verið meðafli. Beitir NK er nú að landa rúmlega 1100 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu og þar af eru einungis 260 tonn makríll. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í dag með 600 tonn og er ráðgert að hann hefji löndun í kvöld. Afli Bjarna er eingöngu síld. 
 
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að aflinn hefði fengist í tveimur stuttum holum. „Við fengum þetta 15 mílur austur af Norðfjarðarhorni og þetta er falleg síld af stærstu gerð. Það var mikið af síld að sjá á þessu svæði og hún virðist reyndar vera alveg upp í landsteinum. Við fórum til dæmis yfir góða torfu þegar við áttum tvær mílur í Hornið. Það er víða líflegt og við fréttum í morgun að það væri mikil makrílveiði úti í Smugu,“ sagði Gísli.