Síðustu dagana hafa makríl- og síldarskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar lagt meiri áherslu á síldveiðar en gert hefur verið fyrr á vertíðinni. Til þessa hefur yfirleitt öll áhersla verið lögð á að ná makrílkvótanum og síldin einungis verið meðafli. Beitir NK er nú að landa rúmlega 1100 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu og þar af eru einungis 260 tonn makríll. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í dag með 600 tonn og er ráðgert að hann hefji löndun í kvöld. Afli Bjarna er eingöngu síld.
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að aflinn hefði fengist í tveimur stuttum holum. „Við fengum þetta 15 mílur austur af Norðfjarðarhorni og þetta er falleg síld af stærstu gerð. Það var mikið af síld að sjá á þessu svæði og hún virðist reyndar vera alveg upp í landsteinum. Við fórum til dæmis yfir góða torfu þegar við áttum tvær mílur í Hornið. Það er víða líflegt og við fréttum í morgun að það væri mikil makrílveiði úti í Smugu,“ sagði Gísli.